Listaverk vikunnar: Fýkur yfir hæðir

Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund Sveinsson frá 1933.

Listaverk vikunnar er Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund Sveinsson frá 1933. Verkið er staðsett við Seljakirkju. 

Fýkur yfir hæðir er dæmigert fyrir þá einföldun í formi sem Ásmundur leitaði eftir á fjórða áratugnum. Smáatriðum er smám saman eytt út úr myndinni þar til eftir stendur það eitt sem nægir til að koma inntaki verksins til skila. Heildarsvipur verksins er einfaldaður niður í einn samfelldan formmassa sem sýnir hvernig móðirin beygir sig yfir barnið og skýlir því fyrir vindinum. Með einföldun er ekki átt við að verk Ásmundar hafi verið að þróast í átt að óhlutbundinni list sem kom síðar á ferli hans, heldur var þetta tilraun til að leita að beinskeyttu og skýru myndmáli sem væri þó ekki raunsæislegt eins og klassískar höggmyndir.

Verkið stendur einnig við Hallveigarstaði og í höggmyndagarðinum við Ásmundarsafn.

Ásmundur Sveinsson (1893-1982) er einn af frumkvöðlunum í íslenskri höggmyndalist. Listasafn Reykjavíkur starfrækir safn um verk hans í einni þeirra, Ásmundarsafni í Laugardal. Ásmundur sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú og í form náttúrunnar. Síðar urðu ýmsar tækninýjungar 20. aldar honum hugleiknar. 

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.