Listaverk vikunnar: Dýrmæti

Dýrmæti eftir Gjörningaklúbbinn frá 2002-03.

Listaverk vikunnar er Dýrmæti eftir Gjörningaklúbbinn frá 2002-03. Verkið stendur við Borgarholtsskóla.

Verkið er demantslaga skúlptúr úr ryðfríu, epoxy-húðuðu stáli. Þá er áletrunin „Ómetanlegt dýrmæti“ á rúðu í skólabyggingunni. Það er líkt og demanturinn hafi fallið af himnum ofan og lent með látum á bílaplani skólans. Samkvæmt listamönnunum vísar áletrunin á glugganum til menntunarinnar og mannauðsins innan veggja skólans. Menntun og reynsla eru ómetanleg dýrmæti sem við eigum og öflum, en falla einmitt ekki af himnum ofan.

Gjörningaklúbburinn var stofnaður árið 1996 af myndlistarkonunum Dóru Ísleifsdóttur, Sigrúnu Hrólfsdóttur, Jóní Jónsdóttur og Eirúnu Sigurðardóttur. Lengst af unnu þær þrjár síðastnefndu saman en undanfarin misseri samanstendur klúbburinn af Jóní og Eirúnu. Gjörningaklúbburinn hefur unnið með flesta miðla myndlistar en starfar á mörkum listgreina og hefur á síðustu árum tengst sviðslist sterkari böndum. Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og einlægni. Klúbburinn vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni. Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim og hefur einnig sýnt gjörninga í óhefðbundnari rýmum og á sviðslistahátíðum.  

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.