Listaverk vikunnar: Bríetarbrekka

Listaverk vikunnar er Bríeterbrekka eftir Ólöfu Nordal.

Listaverk vikunnar er Bríetarbrekka eftir Ólöfu Nordal frá 2007. Verkið er staðsett á lóð Þingholtstrætis 7.

Listaverkið er minningarreitur til heiðurs kvenréttindakonunni Bríeti Bjarnhéðinsdóttur (1856-1940). Fremur en að gera hefðbundna styttu af Bríeti kaus listakonan að skapa umhverfislistaverk þar sem fólk getur komið saman og hugleitt söguna. Í brekkunum í kringum granítplötuna er hægt að standa eða sitja í hring og lítill hóll í horni garðsins er hugsaður sem ræðupallur. Listaverkið er unnið út frá veggteppi sem Bríet saumaði handa dóttur sinni, Laufeyju Valdimarsdóttur, með eftirfarandi ljóði sem talið er að Bríet hafi sjálf ort: „Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði.“ Bríeti dreymdi um frelsi til handa dóttur sinni en brýningin í textanum á jafnt við í dag og á hennar dögum.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefur verið kölluð leiðtogi íslenskrar kvennabaráttu. Hún hóf útgáfu Kvennablaðsins árið 1895 en það rit var einn helsti boðberi kvenréttinda og helsti fréttamiðill kvenna á þeim árum. Árið 1907 gekkst Bríet fyrir stofnun Kvenréttindafélags Íslands og var formaður þess til ársins 1926. Þegar konur í Reykjavík fengu kosningarétt og kjörgengi til bæjar- og sveitarstjórna árið 1908 gekkst Bríet fyrir því að öll kvenfélög í Reykjavík bundust höndum saman á árunum 1908–16 og buðu fram sérstaka kvennalista.

Ólöf Nordal (f. 1961) vísar gjarnan í verkum sínum til þjóðsagnaarfsins, þjóðlegrar arfleifðar og menningarlegs minnis sem hún setur í nútímalegt samhengi. Náttúran og tengsl okkar við landið eru henni einnig hugleikin.