Listaverk vikunnar: Áfangar

Áfangar eftir Richard Serra frá 1990.

Listaverk vikunnar er Áfangar eftir Richard Serra frá 1990. Verkið er staðsett í Viðey.

Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vesturey og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi. Listaverkið var sett upp að frumkvæði Listahátíðar í Reykjavík árið 1990 en Reykjavík stóð fyrir byggingu verksins. Verkið er úr stuðlabergi og vísar þannig til jarðsögu eyjarinnar og undirstrikar um leið órjúfanleg tengsl þess við umhverfi sitt.

Listaverkið er byggt upp á níu stuðlabergspörum sem sett eru á sömu hæðarlínurnar á útjaðri eyjarinnar, þannig að annar strendingurinn stendur á níu metra hæðarlínu yfir sjávarmáli og hinn á tíu metra hæðarlínu. Strendingarnir eru jafnir að ofan þannig að annar þeirra er fjögurra metra hár og hinn þriggja metra hár og jöfn hæð þeirra þrettán metrar yfir sjávarmáli. Bilið milli þeirra ákvarðast af landhallanum í þá stefnu sem valin er milli stuðlanna. Öll stuðlabergspörin eru sýnileg af hæsta punkti eyjunnar sem er átján metrar yfir sjávarmáli.

Verkið ber mörg einkenni minimalískrar myndlistar; margfalda endurtekningu sömu formanna, öxullausa samhverfu symmetríu, stærðfræðilega reglu og beinskeytt áhrif á nánasta umhverfi. Listamaðurinn gaf andvirði þóknunar sinnar fyrir gerð verksins í Viðey í styrktarsjóð á Íslandi sem ber nafn hans og veitir styrki þriðja hvert ár.

Richard Serra (f. 1939) er bandarískur og einn virtasti myndlistarmaður samtímans. Hann er þekktastur fyrir umfangsmikla skúlptúra úr járni sem umlykja áhorfandann og geta virkað yfirþyrmandi. Í verkum sínum leggur Serra áherslu á fletta saman listaverkin og nánasta umhverfi þess auk þess að  virkja áhorfandann til þáttöku. Hann er frumkvköðull hugmyndarinnar um staðbundna list, það er gerð verka sem eru algjörlega háð þeim stað sem þau eru sýnd á, því verk og umhverfi mynda órofa heild. 

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.