Listasafn Reykjavíkur 2015: Sex nýjar sýningar – tæplega hundrað listamenn

Fjölbreyttar sýningar með verkum eftir tæplega hundrað listamenn verða opnaðar hjá Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni, á næstu mánuðum.

Þann 17. janúar verður opnuð á Kjarvalsstöðum sýning á verkum Einars Hákonarsonar sem nefnist Púls tímans. Verkin á sýningunni ná yfir 50 ára feril þessa merka listamanns og sýna vel þróunina sem hefur orðið á listsköpun hans á þessu tímabili. Á sama tíma opnar á Kjarvalsstöðum sýningin Ljóðrænt litaspjald, úr safneign Kjarvals. Þar verða m.a. teikningar sem Kjarval vann á plast og er þetta í fyrsta skipti sem þær eru sýndar.

Sýning á verkum bandaríska listamannsins Cory Arcangel verður jafnframt opnuð í Hafnarhúsi í janúar en hún nefnist Margt smálegt,. Arcangel hefur m.a. skapað sér nafn í listheiminum sem frumkvöðull sem leiðir saman stafræna tækni og list.

Í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum verða sýningarnar Nýmálað I og II opnaðar í febrúar og mars þar sem sýnd verða málverk eftir 85 starfandi listamenn. Sýningarnar gefur yfirlit um stöðu málverksins á Íslandi í dag og hefur svo víðtæk úttekt á íslensku samtímamálverki ekki verið gerð áður hér á landi.

Í Ásmundarsafni verður sýningin Vatnsberinn: Fjall+kona opnuð í febrúar. Þar er þess minnst að á árinu 2015 eru 100 ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi Hin kunna höggmynd Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn er þungamiðja og leiðarstef sýningarinnar. Á sýningunni verða ásamt Vatnsberanum önnur valin verk Ásmundar, í samtali við verk sjö annarra listamanna.

Það er því af nóg að taka í Listasafni Reykjavíkur á nýju ári og fjölbreytnin í fyrirrúmi. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um sýningar framundan.