Listamenn skoða umhverfi Vogabyggðar

Listamenn skoða umhverfi Vogabyggðar

Listamennirnir sem valdir voru til þátttöku í samkeppni um gerð útilistaverks eða verka í Vogabyggð skoðuðu í gær svæðið þar sem hverfið mun rísa ásamt Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listsafns Reykjavíkur, og fleirum.

Fyrr um daginn sátu listamennirnir kynningarfund með arkitektum og hönnuðum Vogabyggðar og fengu jafnramt kynningu á sögu og náttúru svæðisins. Í deiliskipulagi Vogabyggðar kemur fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu og er samkeppnin einstök hvað það varðar að hugmyndir um listaverk koma fram snemma á mótunarferli svæðisins. 

Átta listamenn voru valdir til þátttöku í samkeppninni, þar af einn listamannahópur. Það eru listamannahópurinn A Kassen, Alicja Kwade, Carl Boutard, Elín Hansdóttir, Finnbogi Pétursson, Karin Sander, Rósa Gísladóttir og Tomás Saraceno. 

Næstu skref eru að listamennirnir skili þróuðum tillögum að verkum sínum í nóvember.