Listamenn í D-sal 2023

Settar hafa verið á dagskrá fjórar nýjar sýningar í D-sal fyrir árið 2023.
Listamennirnir sem standa að baki sýninganna eru Dýrfinna Benita Basalan, Helena Margrét Jónsdóttir, Logi Leó Gunnarsson og tvíeykið Klāvs Liepiņš og Renāte Feizaka.
Dýrfinna Benita Basalan (f.1992) einnig þekkt undir listamannsnafninu Countess Malaise, útskrifaðist árið 2018 frá Gerrit Rietveld Academie með B.A. gráðu í myndlist og hönnun og hefur starfað síðastliðin ár sem myndlistarkona á ýmsum vettvangi. Hún dregur myndheim sinn ýmist úr jaðarmenningu, manga, hinsegin menningu og persónulegri reynslu sinni sem einstaklingur af blönduðum uppruna. Dýrfinna er einn afþremur meðlimum Lucky 3 hópsins ásamt Melanie Ubaldo og Darren Mark sem vann hvatningarverðlaun myndlistarráðs árið 2022.
Helena Margrét Jónsdóttir (f.1996) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019 eftir að hafa stundað nám í myndlist við Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og Myndlistarskólann í Reykjavík. Miðill Helenu Margrétar er málverkið. Þar túlkar hún meðal annars hversdagsleikann og neyslumenningu með skírskotun til airbrush-auglýsingateikninga í stíl sem er hægt að líkja við blöndu af raunsæi og súrealsima.
Logi Leó Gunnarsson (f.1990) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2014. Logi Leó vinnur með hljóð, skúlptúra og vídeó í óvæntum samsetningum og innsetningum sem gjarnan yfirtaka sýningarrýmið. Verk hans eru stundum gagnvirk. Með því að virkja hversdagslegan efnivið í bland við tónlist, upptöku og hljóðbúnað fær hann áhorfendur til að horfa á og hlusta á kunnuglega hluti á nýjan hátt.
Listamannatvíeykið Klāvs Liepiņš (f. 1991) og Renate Feizaka (f. 1987) vinna sameiginlega með hugmyndir um sjálfsmynd og einkenni. Í fyrri verkum hafa þau krufið erft minni sem einkennir póst-sovésku kynslóðina, áhrif kirkjunnar á sjálfsskynjun og einstaklinginn innan verkamannastéttar með vídeó innsetningum og skúlptúrum. Klāvs lauk BA -námi í samtímadansi við Listaháskóla Íslands árið 2018 og Renate frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2020.
Alls bárust yfir 100 tillögur að sýningu í D-sal fyrir komandi sýningarár. Að valinu unnu sýningarstjórar safnsins, þau Aldís Snorradóttir, Becky Forsythe, Björk Hrafnsdóttir og Markús Þór Andrésson ásamt safnstjóra Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur.
Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Þar er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.