Leifur Ýmir hlaut hvatningarverðlaun ársins

Leifur Ýmir Ejólfsson

Leifur Ýmir Eyjólfsson, myndlistarmaður, hlaut hvatningarverðlaun ársins 2019 fyrir sýninguna Handrit í D-sal Hafnarhússins. Eygló Harðardóttir var valin myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Annað rými í Nýlistasafninu. Listasafn Reykjavíkur óskar báðum listamönnunum til hamingju með verðlaunin. Sýningin Handrit stendur yfir í D-sal Hafnarhússins til 4. mars og nú hefur verki Eyglóar Harðardóttur, Gler Skúlptúr af sýningunni Annað rými  verið komið fyrir á þriðju hæð Hafnarhússins í tilefni verðlaunanna. Verkið er hluti af safneign Listasafns Reykjavíkur. 

Dómnefndin segir að Leifi „takist með eftirminnilegum hætti að samþætta inntak og efnivið í sýningu sem fylgir áhorfandanum út úr safninu og inn í hvunndaginn þar sem hún heldur áfram að gerjast".Sýningarstjóri sýningarinnar var Markús Þór Andrésson. Um sýningu Eyglóar segir dómnefndin að þar komi öll helstu einkenni listakonunnar fram, „ástríða fyrir myndlist, óheft sköpun, djúpstæð forvitni um virkni þess óræða, miðlun og kennsla sem felst í því trausti sem hún sýndi áhorfendum til þátttöku í sköpuninni". 

Tilnefndir sem myndlistarmenn ársins auk Eyglóar voru Guðmundur Thoroddsen fyrir Snip Snap Snubbur í Hafnarborg, Hekla Dögg Jónsdóttir fyrir Evolvement í Kling og Bang og Steinunn Gunnlaugsdóttir fyrir Litlu hafpulsuna, Cycle Music & Art - þjóð meðal þjóða. Tilnefndir til hvatningarverðlauna ársins auk Leifs Ýmis voru Auður Ómarsdóttir fyrir Stöngin inn í Kling og Bang og Fritz Hendrik fyrir Draumareglan í Kling og Bang.

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019: Aðalsteinn Ingólfsson fyrir Listfræðafélag Íslands, Hanna Styrmisdóttir, fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna, Jóhann Ludwig Torfason fyrir Samband íslenskra myndlistarmanna, Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður dómnefndar, fulltrúi myndlistarráðs og Sigurður Guðjónsson frá Listaháskóla Íslands.