Leiðsögn á síðasta sýningardegi: Stríð og friður í Hafnarhúsi

Sunnudagurinn 22. janúar er síðasti dagur sýningarinnar Stríð og friður eftir Erró í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Af því tilefni verður leiðsögn um sýninguna kl. 14.00 þann sama dag. 

Stríð og pólitík hafa verið viðfangsefni Errós (f. 1932) allan hans feril. Hann rýnir umhverfið og fjallar með gagnrýnum hætti um atburði líðandi stundar með því að flétta saman skáldskap og raunveruleika í verkum sínum.

Erró er virkur áhorfandi og fjallar með gagnrýnum hætti um atburði líðandi stundar, en hann dregur þó ekki upp mynd af sögunni í eiginlegri merkingu. Stundum véfengir skáldskapurinn þannig hinn sögulega veruleika og hefur frásögnina upp á hærra plan, fjarlægara og óhlutbundnara.

Skopskynið og háðið verður þannig til þess að grimmileg viðfangsefnin verða mildari, misgengi verður til og merkingin verður enn margbreytilegri.

Á sýningunni má sjá eitt af fyrstu verkum listamannsins Stríðið frá árinu 1950. Strax þá er hann að vinna með efnivið eins og ofbeldi, eyðileggingu og dauða. Ísland er í miðju verkinu og fyrir ofan lítið hringlaga heimskort og aftan við það sjást útlínur atómsprengju, mitt á milli austurs og vesturs.

Sýningarstjóri er Danielle Kvaran.