Kvöldgöngur í Reykjavík

Kvöldgöngur í Reykjavík

Borgarbókasafnið, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur bjóða upp á kvöldgöngur með leiðsögn fimmtudagskvöld í  júlí og ágúst. Ókeypis aðgangur.
 

Dagskrá sumarsins 2018

Mánasteinn
Fimmtudag 5. júlí | Borgarbókasafnið
Ana Stanicevic leiðir göngu um slóðir skáldsögunnar Mánasteins eftir Sjón. Sagan gerist í Reykjavík árið 1918, í skugga Heklugoss, spænsku veikinnar og annarra hörmunga.

Endurlífgun borgargatna
Fimmtudag 12. júlí | Listasafn Reykjavíkur
Hjálmar Sveinsson heimspekingur og borgarfulltrúi leiðir göngu frá Grófinni upp á Hlemm. Sjónum verðum beint að þróun Tryggvagötu og Hverfisgötu sem eru að taka miklum breytingum um þessar mundir.

Matarganga á Granda
Fimmtudag 19. júlí | Borgarsögusafn
Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur leiðir kvöldgöngu um Grandann og fjallar um matarmenningu og grósku á Grandanum að fornu og nýju.
Gangan hefst við Sjóminjasafnið í Reykjavík.

Bannárið 1918
Fimmtudag 26. júlí | Borgarbókasafnið
Áfengisbann tók gildi á Íslandi árið 1915 og sambandslögin því samþykkt af þjóð bindindismanna og -kvenna þremur árum síðar. Stefán Pálsson sagnfræðingur leiðir göngu um þurra Reykjavík ársins 1918 og þar um bil.

Pönk
Fimmtudag 2. ágúst | Borgarsögusafn

Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur leiðir göngu um miðborgina, heimsækir fornar pönkslóðir og rekur söguna af því hvernig pönkið barst til Íslands, hver áhrif þess voru og hvernig Reykjavík var þegar pönkið skaut rótum.

Hinsegin bókmenntir
Miðvikudag 8. ágúst kl. 19.00 | Borgarbókasafnið

Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur leiðir göngu á vit hinsegin bókmennta í miðborginni. Gangan er hluti af dagskrá hinsegin daga í Reykjavík.
Athugið óhefðbundinn upphafstíma, miðvikudagskvöld kl. 19.

List í almenningsrými: Strandlengjan
Fimmtudag 16. ágúst | Listasafn Reykjavíkur

Sigurður Trausti Traustason og Edda Halldórsdóttir hjá Listasafni Reykjavíkur leiða göngu um útilistaverk við Sæbraut, frá Hörpu á Hlemm.
Gangan hefst við Hörpu, við listaverk Ólafar Pálsdóttur Tónlistarmaðurinn.

Á slóðum fullveldis
Fimmtudag 23. ágúst | Borgarsögusafn

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur rifjar upp atburði hins viðburðaríka árs 1918, þar á meðal frostaveturinn mikla, Kötlugos, innrás spönsku veikinnar og staðfestingu fullveldis Íslendinga í konungssambandi við Danmörku.
Gangan hefst við Hörpu.

Vogabyggð: skipulag nýs hverfis og list í almenningsrými
Fimmtudag 30. ágúst | Listasafn Reykjavíkur
Gengið verður um Vogabyggð í fylgd Sigríðar Magnúsdóttur arkitekts og Ólafar K. Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í þessu nýja hverfi.
Gangan hefst á bílastæði við Knarrarvog.

Einnig er hægt að fylgjast með á síðunni facebook.com/kvoldgongur.