Kærleikskúlan 2021

Kærleikskúlan 2021

Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er kærleikskúla ársins 2021. Sirra er nítjándi listamaðurinn sem tekst á við það gefandi og jafnframt krefjandi viðfangsefni að tengja hugmyndir sínar og listræna sköpun við Kærleikskúlu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra – hún bætist þar með í hóp frábærra listamanna sem í gengum þetta verkefni hafa lagt sitt af mörkum í þágu góðs málefnis. Markmiðið með sölu kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélagsins í Reykjadal. Kærleikskúlan verður seld í safnverslunum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum fram á Þorláksmessu, 23. desember.

Kærleikskúlan sýnir sýnir sólargang eins árs segir Sirra: „Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug. Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.“

Sirra hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og Kling & Bang. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víða um heim, þar á meðal í Kína, Finnlandi og á Englandi. Sirra hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir list sína og m.a. fengið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og verðlaun Guðmundu S. Kristinsdóttur

Handhafi Kærleikskúlunnar í ár er Karl Guðmundsson listamaður.  

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og er Eitt ár því nítjánda kúlan. Úr er orðið fjölbreytt safn listaverka eftir marga af okkar þekktustu listamönnum. Fyrri listamenn Kærleikskúlunnar eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Egill Sæbjörnsson, Elín Hansdóttir, Ólöf Nordal og Finnbogi Pétursson. Hægt er að nálgast eldri Kærleikskúlur í netversluninni www.kaerleikskulan.is