Kærleikskúlan 2020 – ÞÖGN eftir Finnboga Pétursson

Kærleikskúlan 2020 – ÞÖGN eftir Finnboga Pétursson
Samstarfsaðili/-ar: 
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra

ÞÖGN eftir Finnboga Pétursson er Kærleikskúla ársins 2020. Þetta er í átjánda sinn sem Kærleikskúlan kemur út en markmið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði af sölunni rennur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Kærleikskúlan er meðal annars seld í safnverslunum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Salan hefst fimmtudaginn 3. desember. 

Augnabliks þögn á metra löngu segulbandi 

Finnbogi Pétursson hefur lengi verið í fremstu röð íslenskra listamanna og er brautryðjandi á sínu sviði myndlistarinnar. Hann hefur haldið tugi sýninga um allan heim, var með einkasýningu í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi í fyrra og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001. Hljóð hefur verið meginefniviðurinn í myndlistinni frá upphafi. Skynjunin er Finnboga hugleikin, hann leikur sér með mörk sjónar og heyrnar og gjarnan svo að hið ósýnilega verður sýnilegt. Í innsetningum hans verða nærstaddir að þátttakendum sem hafa áhrif á verkið á sama tíma og þeir upplifa ljós- og hljóðbylgjur á nýjan hátt. 

Kærleikskúlan ÞÖGN hefur að geyma hljóðupptöku á segulbandi. Svona lýsir Finnbogi verkinu: Kærleikskúlan geymir augnabliks þögn – eina sekúndu á metra löngu segulbandi. Upptakan er gerð á Arnarstapa sumarið 1986 milli klukkan þrjú og fjögur að nóttu. Þarna hitti ég stundina þegar allt þagnar; fuglarnir, sjórinn, vindurinn, rollurnar –flugurnar. Stundina þegar náttúran endurstillir sig, verður hljóð og nýr dagur rennur upp.

Handhafi Kærleikskúlunnar í ár er Friðrik Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar. 

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og er ÞÖGN því átjánda kúlan. Úr er orðið fjölbreytt safn listaverka eftir marga af okkar þekktustu listamönnum. Fyrri listamenn Kærleikskúlunnar eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Egill Sæbjörnsson, Elín Hansdóttir og Ólöf Nordal. Hægt er að nálgast eldri Kærleikskúlur í netversluninni www.kaerleikskulan.is