Kærleikskúlan 2019: SÓL ÉG SÁ

Ólöf Nordal

Ólöf Nordal er höfundur kærleikskúlunnar 2019: SÓL ÉG SÁ

Kærleikskúlan var afhent afreksmanninum Má Gunnarssyni - sundkappa og tónlistarmanni við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum í dag. 

Listakonan Ölöf Nordal flutti þar eftirfarandi ávarp:  

„Þegar Sæmundur fróði lá banaleguna og mönnum virtist hann andaður hreyfðust á honum þrír fingurnir á hægri hendinni sem vildu þeir taka um eitthvað.
Lengi voru menn í efa um hvað slíkt hefði að þýða; loksins voru ýmsir hlutir bornir að fingrunum, en þeir héldu áfram að hreyfast þangað til þeim var fenginn penni, þá beygði sig einn fingurinn utan um hann; síðan var réttur pappír hinum fingrunum, og beygði sig annar fingurinn að honum; þá var nú sjálfsagt að fá hinum þriðja blekbyttuna.
Eftir það skrifuðu fingurnir Sólarljóð og þegar þeim var lokið slepptu þeir ritfærunum og urðu máttvana og hreyfðust aldrei síðan.

Því miður verð ég að hryggja ykkur með því að það er næsta víst að Sæmundur fróði var ekki höfundur Sólarljóða, enda uppi heilum tveimur öldum áður en talið er að kvæðin hafi verið ort. En sagan er skemmtileg þar sem dregin er upp spaugileg mynd af Sæmundi fróða, hálfum komnum inn í handanljósið, að rita þetta stórkostlega kvæði.

Textinn á kærleikskúlunni í ár „Sól ég sá‘‘ er fenginn að láni úr leiðslukvæðinu Sólarljóðum, sem er trúarlegt ljóð þar sem Guð, eða hið göfga goð, birtist sem sólin.

Með kærleikskúlunni langaði mig að fanga í glerhnöttinn sólarljósið sjálft á þessum dimmasta tíma ársins, þegar við þurfum að halda í trúna á að birtan komi aftur.
Kúlan í ár er því gerð úr hreinu gegnsæju gleri. Stafirnir sem segja, Sól ég sá, eru sýnilegir af því ljósgeislarnir brotna á ígreyptum stöfunum og minna okkur þannig á endurkomu ljóssins og hækkandi sól.

Kúlur Styrktarfélagsins eru kallaðar kærleikskúlur, en huglægt birtist ást og kærleikur okkur sem ljós – sólarljós sem er undirstaða lífsins og við fögnum með hátíð ljóssins sem brátt fer í hönd."