Júlíana Sveinsdóttir, Ruth Smith, Anni Albers og Kjarval- sýningaopnun 19. júní á Kjarvalsstöðum

Sýningaropnun á Kjarvalsstöðum

Þrjár spennandi sýningar verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum á kvennadaginn, föstudaginn 19. júní kl. 17. Þetta eru sýningarnar Júlíana Sveinsdóttir og Ruth Smith: Tvær sterkar, Veflistaverk Júlíönu Sveinsdóttur og Anni Albers: Lóðrétt / lárétt og Kjarvalssýningin: Út á spássíuna. Sýningarnar Tvær sterkar og Lóðrétt / lárétt eru haldnar í tilefni af því að á þessu ári eru öld frá því konur fengu kosningarétt hér á landi. Á Kjarvalssýningunni er Kjarval sýndur á nýjan hátt eða sem rithöfundurinn, skáldið og nýyrðasmiðurinn.

Júlíana Sveinsdóttir og Ruth Smith: Tvær sterkar
Sýning á verkum Júlíönu Sveinsdóttur (1889–1966) og hinnar færeysku  Ruth Smith. Listakonurnar eiga margt sameiginlegt. Báðar fæddust  á vindbörðum og gróðursnauðum eyjum  í Norður- Atlantshafinu, Júlíana á Heimaey  í Vestmannaeyjum og Ruth á Suðurey  í  Færeyjum. Leiðir þeirra lágu á Listaakademíuna í Kaupmannahöfn en þær voru meðal fyrstu kvennanna sem gerðu myndlist að ævistarfi. Mannleg einsemd, einangraðra samfélaga fyrri tíma, birtist í verkum þeirra frá heimahögunum sem  urðu  þeim að yrkisefni  allan  starfsferilinn. Ekki síst hin sterku öfl  hafsins, þar sem manneskjan skynjar smæð sína frammi fyrir óendanleika náttúrunnar en þar túlka þær með afar næmu litaskyni, birtu og andrúmsloft umhverfisins. Sýningin gefur gott yfirlit yfir feril þeirra sem landslagsmálara, en báðar lögðu einnig mikla rækt við gerð mannamynda og bregða upp sterkum lýsingum af samferðafólki sínu. Eftir þær liggja einnig afar áhugaverðar sjálfsmyndir, þar sem þær beita vægðarlausri sjálfsgagnrýni og draga ekkert undan, hvort sem það er þunglyndi eða elli og hrörnun. Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram en sýningin er styrkt af Norræna menningarsjóðnum.

Veflistaverk Júlíönu Sveinsdóttur og Anni Albers: Lóðrétt / lárétt
Samhliða starfi sínu sem málari átti Júlíana Sveinsdóttir (1889-1966) farsælan og mjög athyglisverðan feril sem listvefari og fjallar sýningin um þann hluta ferils hennar. Hér eru veflistaverk  Júlíönu sýnd ásamt verkum þýska Bauhausvefarans  og myndlistarmannsins Anni Albers (1899–1994) sem var einn áhrifamesti veflistamaður síðustu aldar. Bæði Júlíana og Anni byrjuðu fyrir tilviljun að vefa og í stað þess að nota hefðbundna tækni fóru þær eigin leiðir og voru óhræddar við að gera tilraunir í óhefðbundin efni. Sýningarstjóri er Ingibjörg Jónsdóttir.

Út á spássíuna-texti og pár í list Kjarvals
Jóhannes S. Kjarval (1885-1972) var einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar en hver var rithöfundurinn, skáldið og nýyrðasmiðurinn Kjarval? Margir hafa bent á þá áráttu Kjarvals að varðveita allt og ekkert, skrifa og teikna á það sem hönd á festi. Ótrúlega margt hefur varðveist og á sýningunni verður grafið niður í þennan einkaheim Kjarvals og dreginn fram fjöldi teikninga og ýmis skrif þar sem hann samþættir texta og teikningu. Mörg verkanna eru nánast sjálfsprottin og óreiðukennd, þau spegla óstöðvandi sköpunarþrá Kjarvals og kvikan huga hans. Sum þeirra draga fram persónulegri og dekkri hlið en þá sem flestir þekkja en hér má einnig finna efni, svo sem uppköst að bréfum sem gefa vísbendingu um fjölbreytt og falleg sambönd hans við fólkið í landinu. Hér sést glitta í margar hliðar Kjarvals: Rithöfundinn, skáldið, nýyrðasmiðinn, vininn, samferðamanninn en umfram allt listamanninn sem alltaf kemur á óvart. Sýningarstjórar eru Æsa Sigurjónsdóttir og Kristín Guðnadóttir.