Janúartilboð fyrir menningarkorthafa

Í janúar gefst menningarkorthöfum kostur á að bjóða vini endurgjaldslaust með sér á Ásmundarsafn þar sem sýningin Geimþrá stendur yfir. Á sýningunni eru verk eftir listamenn sem hver um sig hafa sett mark sitt á íslenska listasögu 20. aldar, einkum þegar litið er til þrívíðrar myndlistar. Auk verka Ásmundar Sveinssonar (1893–1982) eru á sýningunni verk eftir Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Verkin á sýningunni eru flest frá 6. og 7. áratugnum og vísa til tækniframfara þess tíma, í framtíðarsýn geimvísinda, en einnig til vísindaskáldskapar sem þá var orðin þekkt grein innan bókmennta og kvikmynda.