Íþróttamenn á Laugardalshöll, lágmynd eftir Gest Þorgrímsson og Sigrúnu Guðjónsdóttur

Laugardalshöll, íþróttafólk

Stór lágmynd eftir keramiklistamennina og hjónin Gest Þorgrímsson (1920 – 2003) og Sigrúnu Guðjónsdóttur (betur þekkt sem Rúna; f. 1926) hefur verið sett upp á framhlið Laugardalshallarinnar. Myndin, sem er úr brenndum steinleir, sýnir íþróttamenn við margvíslega íþróttaiðkun. Myndin var upphaflega á stúku Laugardalsvallar en var tekin niður árið 2006 þegar stúkan var brotin niður og byggð ný. Á þeim tíma tókst ekki að finna annan nógu stóran gluggalausan vegg fyrir myndina. Vegna efnisins þótti ekki rétt að setja hana á önnur hús en íþróttamannvirki. Verkið var því í geymslu í níu ár.

 
Arkitekt Laugardalshallarinnar og upphaflegu stúkunnar, Gísli Halldórsson (1914–2012), var aðdáandi verksins og átti þátt í að það var pantað fyrir stúkuna árið 1981. Í júní 2010 skrifuðu Gísli og Rúna sameiginlegt bréf til borgarstjórnar þar sem þau sögðu m.a.: „Við óskum þess heitt að verkið fái að njóta sín í Laugardalnum og eftir að hafa farið saman í vettvangsferð um dalinn leggjum við til að verkinu verði komið fyrir á framhlið Laugardalshallar“. Á þeim tíma var ekki hægt að verða við þessum óskum en þeim var haldið til haga og þegar tækifæri gafst var ákveðið að setja verkið upp á framhlið Hallarinnar.
 
Gísli gerði grófa tillögu að því hvernig verkið yrði sett upp og Ásgeir Ásgeirsson frá T.ark teiknaði endanlegu uppsetninguna í samráði við Rúnu. Guðný Magnúsdóttir leirlistakona undirbjó verkið fyrir uppsetningu í samráði við Rúnu.