Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir er handhafi Guðmunduverðlaunanna 2022

Frá afhendingu Guðmunduverðlaunanna: Erró, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Dagur B. Eggertsson. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.

Listamaðurinn Erró afhenti í dag Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, myndlistarkonu, viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og BA gráðu í myndlist frá sömu stofnun árið 2007. Hún er einnig með BA gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum frá 2002. Í listsköpun sinni fæst Ingunn við ýmsa miðla eins og málverk, vefnað og innsetningar. Verk hennar fela oft í sér gagnvirkni eða beina þátttöku og teygir hún þannig verkin inn í opið kerfi þar sem þau lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins.
 
Verk Ingunnar hafa verið sýnd víða í galleríum og söfnum á Íslandi, þar á meðal í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands og í Hafnarborg. Ingunn hefur tekið þátt í fjölda samsýninga erlendis, má þá m.a. nefna tvíæringinn Prag 5 í Tékklandi, Cluj safnið í Rumeníu og Kunstverein Springhornhof í Þýskalandi. Af nýlegum einkasýningum má nefna Þú ert kveikjan / You are the Input sem sýnt var í Galerie Herold í Bremen 2019 og stendur nú yfir í Listasafni Árnesinga. Framundan er einkasýning í Listasafni Íslands sem opnar í maí næstkomandi og samstarfssýning með Þórdísi Jóhannesdóttur í Sláturhúsinu, Menningarmiðstöð Fljótdalshéraðs á Egilsstöðum sem opnar í júlí.

Myndlistarmaðurinn Erró stofnaði Guðmunduverðlaunin árið 1997 til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Með því vildi hann leggja sitt af mörkum til framþróunar íslenskrar myndlistar. Styrkur úr sjóðnum er veittur framúrskarandi listakonu, helst árlega. Styrknum er ætlað að vera hvatning til frekari dáða á sviði myndlistar. Peningaupphæðin, ein milljón króna, er nú ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi.

Þetta er í 22. sinn sem styrkurinn er veittur og er það afar öflugur hópur listkvenna sem fengið hefur viðurkenninguna hingað til.

1998 Ólöf Nordal
1999 Finna Birna Steinsson
2000 Katrín Sigurðardóttir
2001 Gabríela Friðriksdóttir
2002 Sara Björnsdóttir
2003 Þóra Þórisdóttir
2004 Guðrún Vera Hjartardóttir
2006 Hekla Dögg Jónsdóttir
2008 Hulda Stefánsdóttir
2009 Margrét H. Blöndal
2010 Sara Riel
2011 Þórdís Aðalsteinsdóttir
2012 Ósk Vilhjálmsdóttir
2013 Guðný Rósa Ingimarsdóttir
2014 Ásdís Sif Gunnarsdóttir
2015 Sirra Sigrún Sigurðardóttir
2016 Hildigunnur Birgisdóttir
2017 Elín Hansdóttir
2018 Dodda Maggý
2019 Hulda Rós Guðnadóttir
2021 Anna Rún Tryggvadóttir