Íbúar vilja auðga mannlífið – samkeppni um útlistaverk í Vesturbæ Reykjavíkur

Íbúar vilja auðga mannlífið – samkeppni um útlistaverk í Vesturbæ Reykjavíkur

Reykjavíkurborg efnir til samkeppni um gerð útilistaverks í Vesturbæ Reykjavíkur. Samkeppnin er haldin í kjölfar íbúakosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020. Á meðal þess sem Vesturbæingar kusu var að halda samkeppni um gerð útilistaverks í hverfinu. 

Hverfið mitt er verkefni þar sem íbúar borgarinnar kjósa um hugmyndir og forgangsröðun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna. Útilistaverk í Vesturbæ er ein af rúmlega 90 hugmyndum borgarbúa sem koma til framkvæmda sumarið 2020. 

Markmið þess að koma listaverki fyrir í Vesturbænum er að auðga mannlífið og fegra eða virkja vannýtt svæði. Kallað er eftir fjölbreyttum hugmyndum um leið og horft verður til þess að listaverk hafi margbreytilega virkni, sé notið af ólíkum aldurshópum eða tengist sögu svæðisins.

Hverfið afmarkast af Suðurgötu og Garðastræti til austurs og mörkum Reykjavíkur og Seltjarness til vesturs – sjá skýringarmynd. Listaverkið á að vera hluti af almannarými í hverfinu og því sé fundinn staður þar sem margir geta notið þess en einnig skal hafa í huga að nýta borgarlandið eða fasteignir borgarinnar.

Þeir sem áhuga hafa á að vinna verkið eru beðir senda inn nafnlausa tillögu þar sem fram kemur stutt lýsing á hugmyndinni að baki, efnisval og kostnaðaráætlun þar með talin höfundarlaun. Heildar kostnaður við verkið og uppsetningu þess verði að hámarki 10 milljónir króna. Nánari upplýsingar og keppnislýsingu er að finna hér

Um samkeppnina gilda samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Þátttaka í samkeppninni er opin öllum skapandi einstaklingum og hópum. Dómnefnd skipuð fulltrúum Reykjavíkurborgar og SÍM mun velja úr innsendum tillögum. 

Tillögum skal skilað fyrir kl. 17.00 fimmtudaginn 21. maí 2020. Niðurstöður dómnefndar verða kynntar í síðasta lagi 22. júní 2020. Áætlað er að uppsetningu listaverks ljúki á árinu 2020.