Hvorki né – ný sýning Kunstschlager laugardaginn 15. ágúst kl. 15

Hvorki né / Neither Nor

Sýningin Hvorki né verður opnuð í D- sal Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur, laugardaginn 15. ágúst kl. 15. Sýningin er sú fimmta og næstsíðasta í sumarsýningarröð Kunstschlager í D-sal Hafnarhússins þar sem hver meðlimur Kunstschlager fær með sér valda myndlistarmenn.

Að þessu sinni hefur Sigmann Þórðarson fengið til liðs við sig þau Bjarna Þór Pétursson, Emmu Heiðarsdóttur, Klæng Gunnarsson og Unu Björgu Magnúsdóttur.

Fimmmenningarnir takast á við hversdagsleikann á ævintýralegan hátt og velta upp spurningum um tilvist og tilgang, skilgreiningar og umbreytingar, verkkvíða, ómöguleika og allt og ekkert.

Sýningin gerist því á óræðnum stað þar sem andstæður geta rekist á eða jafnvel runnið saman. Sýningin er hvorki né eða heldur betur, nema hvorutveggja sé.

 

Mynd: Kústskaft: Klængur Gunnarsson