Hvernig leit framtíðin út á síðustu öld? Geimþrá að ljúka

Geimþrá

Sýningunni Geimþá í Ásmundarsafni lýkur mánudaginn 28. mars. Sýningin hefur notið mikilla vinsælda og var valin ein af fimm athyglisverðustu myndlistarsýningum ársins 2015 af listgagnrýnendum Morgunblaðsins.

Á sýningunni er telft saman fjórum ólíkum listamönnum sem fjölluðu hver á sinn hátt um það sama að einhverju leyti – um framtíðina eins og hún blasti við þeim á síðustu öld. Verkin á sýningunni eru eftir Ásmund Sveinsson, Gerði Helgadóttur, Jón Gunnar Árnason og Sigurjón Ólafsson. Leiðarstef sýningarinnar er sameiginlegur áhugi þessara fjögurra listamanna á himingeimnum og vísindum tengdum honum. Ásmundur hreifst fyrst og fremst af framförum geimvísindanna á meðan Sigurjón var áhugamaður um stjörnufræði. Gerður Helgadóttir kannaði dulspekilegar víddir geimsins en Jón Gunnar skoðaði hann úr frá sjónarhorni vísindaskáldskapar.