Hjólastóladiskó og síðasta leiðsögnin meðal viðburða á Menningarnótt

Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir

Á meðal ótal viðburða hjá Listasafni Reykjavíkur á Menningarnótt er Hjólastóladiskó í porti Hafnarhússins
Stórstjörnur á borð við Pál Óskar, Þórunni Antóníu og Helga Björnsson ætla að syngja og þeyta skífum milli klukkan 19-21 í porti Hafnarhússins á Menningarnótt. Ballið er ætlað fólki í hjólastólum, á hjólaskautum eða bara skrifborðsstólum á hjólum. Hjólastólar verða í boði eins og birgðir endast fyrir þá sem ekki eiga og boðið verður upp á kennslu í þessari einstöku dansgrein.

Auk fyrrnefndra listamanna stíga á stokk mæðginin Edda Björgvinsdóttir og Björgvin Franz Gíslason, Magga Stína, Steindi Jr. og Guðlaug María Bjarnadóttir. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson mun stíga sín fyrstu skref sem plötusnúður og velja fyrsta lagið.

Ballið er haldið í samstarfi Listasafns Reykjavíkur, Tjarnarleikhópsins og íbúa Sólheima í Grímsnesi.

Síðasta leiðsögnin á Kjarvalsstöðum á Menningarnótt
Síðasta leiðsögnin um hina rómuðu sýningu á Kjarvalsstöðum Jóhannes S. Kjarval: Hugur og heimur fer fram kl. 15 laugardaginn 20. ágúst. Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri og sýningarstjóri fræðir gesti um gerð sýningarinnar sem inniber mörg af lykilverkum Kjarvals. Í vestursal safnsins eru sjaldséð verk úr einkasafni Þorvaldar í Síld og fisk. Þar á meðal er veggmyndin Lífshlaupið sem Kjarval málaði á veggi vinnustofu sinnar í Austurstræti. Sýningunni lýkur sunnudaginn 21. ágúst.
 

Fjöldi annarra viðburða er í boði - sjá hér.