Handrit: Sýningarlok í Hafnarhúsi

Handrit: Sýningarlok

Síðasti dagur sýningarinnar Handrit eftir Leif Ými Eyjólfsson í Hafnarhúsi er sunnudagurinn 3. mars. Fyrir sýninguna hlaut Leifur Ýmir hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019.

Sýning Leifs Ýmis í D-sal byggist á safni orða, texta og setningarbrota sem hann hefur haldið til haga og byggt upp síðustu ár. Hann hefur sérstakt dálæti á því sem kemur dags daglega fyrir í samskiptum á milli fólks eða því sem maður hugsar með sjálfum sér án þess að því fylgi sérstök merking. Þetta er tungutak millibilsástands, íhugunar eða hrein uppfylling í þagnir.

Leifur Ýmir setur fram handrit sitt handskrifað og innbrennt í fjölmargar leirplötur sem stillt er upp um alla sýningarveggi.