Handhafi Guðmunduverðlaunanna 2021: Anna Rún Tryggvadóttir

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, afhenti Önnu Rún Tryggvadóttur, myndlistarmanni, viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi.
Anna Rún Tryggavdóttir er myndlistamaður fædd árið 1980. Anna Rún stundaði myndlistarnám í Listaháskóla Íslands og framhaldsnám í Concordia-háskólanum í Montréal í Kanada. Verk hennar hafa vakið athygli jafnt hér heima sem erlendis en hún hefur undanfarin ár skipt tíma sínum á milli Reykjavíkur og Berlínar.
Meðal nýlegra sýningarverkefna má nefna einkasýningu í Kunstlerhaus Bethanien í Berlín á síðasta ári og einkasýningu í D-sal hér í Hafnarhúsi árið 2017. Þá sýndi Anna Rún verkið Garð sem nú er hluti af safneign Listasafns Reykjavíkur. Þess má geta að Anna Rún tekur þátt í stórsýningunni Iðavelli sem sett verður upp í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi í júní á þessu ári og verður þar ein fimmtán listamanna sem munu yfirtaka bygginguna.
Í verkum sínum teflir Anna Rún saman tækni og náttúru þar sem lögmál tækni og náttúru taka þátt í sköpunarferlinu. Hún hefur unnið bæði skúlptúra og innsetningar þar sem ekkert er endanlegt og verkin mótast á meðan á sýningum stendur. Vélbúnaður skapar heim fegurðar í endurteknu ferli sem Annar Rún hefur sett af stað. Þannig verður listaverkið til fyrir augum áhorfenda. Náttúran og hið manngerða mætast í sjálfvirkni sem skapar fegurð fulla af tilviljunum þar sem ferlið sjálft er jafn mikilvægt og endanleg úrkoma – sem raunar getur verið erfitt að sjá fyrir hver verði.
Þó verk Önnu Rúnar séu þaulhugsuð og mörg flókin í framkvæmd er tilviljunin og fegurðin sem felst í flæði lita og forma alltaf nálæg. Anna Rún er verðugur handhafi viðurkenningar Guðmundusjóðs Errós og fulltrúi kraftmikillar kynslóðar íslenskra myndlistamanna sem kveða sér hljóðs jafnt hér heima sem alþjóðlega.
Myndlistarmaðurinn Erró stofnaði Guðmunduverðlaunin árið 1997 til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Með því vildi hann leggja sitt af mörkum til framþróunar íslenskrar myndlistar. Styrkur úr sjóðnum er veittur framúrskarandi listakonu, helst árlega. Styrknum er ætlað að vera hvatning til frekari dáða á sviði myndlistar. Peningaupphæðin, ein milljón króna, er nú ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi.
Þetta er í 21. sinn sem styrkurinn er veittur og er það afar öflugur hópur listkvenna sem fengið hefur viðurkenninguna hingað til.
1998 Ólöf Nordal
1999 Finna Birna Steinsson
2000 Katrín Sigurðardóttir
2001 Gabríela Friðriksdóttir
2002 Sara Björnsdóttir
2003 Þóra Þórisdóttir
2004 Guðrún Vera Hjartardóttir
2006 Hekla Dögg Jónsdóttir
2008 Hulda Stefánsdóttir
2009 Margrét H. Blöndal
2010 Sara Riel
2011 Þórdís Aðalsteinsdóttir
2012 Ósk Vilhjálmsdóttir
2013 Guðný Rósa Ingimarsdóttir
2014 Ásdís Sif Gunnarsdóttir
2015 Sirra Sigrún Sigurðardóttir
2016 Hildigunnur Birgisdóttir
2017 Elín Hansdóttir
2018 Dodda Maggý
2019 Hulda Rós Guðnadóttir