Gjörningur sem skúlptúr: Ragnar Kjartansson og Theaster Gates

Theaster Gates stendur fyrir miðju myndarinnar.

Listasafn Reykjavíkur og Nasher Sculpture Center kynna samtal listamannanna Ragnars Kjartanssonar og Theaster Gates. Listamennirnir ræða um listsköpun sína í tengslum við gjörninga. Þeir eru báðir þekktir fyrir margbrotin verk þar sem gjörningar eru hluti rýmis- og/eða myndbandsverka eða eru  tímabundin inngrip í rými eða samfélag.

Verk Ragnars Kjartanssonar eru Íslendingum vel kunn og er skemmst að minnast stórrar yfirlitssýningar á verkum hans sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi á síðasta ári. Theaster Gates er eins og Ragnar leiðandi í heimi alþjóðlegrar samtímalistar. Hann er þekktur fyrir verk sem hafa víða samfélagslega skírskotun um leið og hann byggir á ríku handverki, endurvinnslu og leirkerasmíði en þar liggur grunnur hans sem listamanns. Theaster Gates er frá Chicago og hefur alla tíð búið í fátækari hluta borgarinnar. Þar hefur hann hefur beitt sér fyrir verkefnum sem eru eins konar samfélagskúlptúrar og með því hefur hann haft umtalsverð áhrif á líf og störf fólks í þessum fátækari hverfum borgarinnar. 

Viðburðurinn er hluti af umræðudagskrá Nasher Sculpture Center sem haldin er árlega á ólíkum stöðum í heiminum. Nasher Sculpture Center starfar í Dallas í Bandaríkjunum og veitir árlega hin virtu Nasher-verðlaun. Theaster Gates er handhafi verðlaunanna í ár. 

Samtal listamannanna fer fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudag 23. ágúst kl. 18.00. Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur, leiðir samtalið.
 

Ragnar Kjartansson
Ragnar Kjartansson fæddist í Reykjavík árið 1976, býr hér og starfar. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2001 og nam við Konunglegu listaakademíuna í Stokkhólmi árið 2000. Hann hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Barbican-listamiðstöðinni í London, Hirshhorn-safninu og skúlptúragarðinum í Washington D.C., Musée d‘art contemporain de Montréal, Palais de Tokyo í París, Nýja safninu í New York, Migros-safninu í Zurich, Fondazione Sandretto Re Rebaudengo í Turin, Frankfurter Kunstverein og BAWAG-nýlistasafninu í Vín. Ragnar tók þátt í Alfræðihöllinni á Feneyjatvíæringnum árið 2013, í Manifesta 10 í St. Pétursborg í Rússlandi 2014 og hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2009. Hann hlaut Artes Mundi Derek Williams sjóðsverðlaunin 2015 og Malcolm McLaren-verðlaun Performa 2011.

Theaster Gates
Theaser Gates fæddist árið 1973 og ólst upp í vesturhluta Chicago. Hann hefur haldið sýningar víða, tekið þátt í samsýningum á borð við Whitney tvíæringinn í New York (2010), í dOCUMENTA 13 (2012), Whitechapel-galleríinu í London (2013), Studio-safninu í New York (2014), 56. Feneyjatvíæringnum (2015) og í Musée du quai Branly í París (2016). Einkasýningar hafa meðal annars verið í Milwaukee listasafninu (2010), listasafni Seattle (2011), MCA Chicago (2013), „Svarta munkaklaustrinu“ í Museu Serralves í Porto (2014), Kunsthaus Bregenz (2016), Fondazione Prada í Mílanó (2016) og Þjóðarlistagalleríinu í Washington D.C. (2017). Gates hlaut Veru List-lista og stjórnmálaverðlaunin árið 2013 og Artes Mundi 6 verðlaunin 2015. Árið 2017 voru honum veitt verðlaun frönsku heiðursfylkingarinnar og 2018 hlaut hann Nasher-verðlaunin. Verk Gates má finna víða í söfnum og á opinberum stöðum, til dæmis í Brooklyn-safninu í New York, Jimenez-Colon-safninu í Ponce í Puerto Rico, Milwaukee-listasafninu, Nýlistasafninu í Chicago, Smart-listasafninu í Chicago, Tate í London, Try-Me í Richmond í Virginíu, Walker-listamiðstöðinni í Minneapolis og Whitney-listasafninu í New York. Gates er formaður og stofnandi Rebuild stofnunarinnar og framkvæmdastjóri listadeildar háskólans í Chicago þar sem hann kennir einnig við sjónlistadeildina. Hann býr og starfar í Chicago.
Theaster Gates - 2018 Nasher Prize Laureate

Markús Þór Andrésson, stjórnandi
Markús Þór Andrésson (f. 1975 í Zurich) er deildarstjóri sýningar og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur en starfaði áður sem sjálfstæður sýningarstjóri, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Auk vinnu við listasýningar hefur hann skrifað í ótal listarit og leikstýrt nokkrum heimildarmyndum og sjónvarpsmyndum um list. Meðal verka og sýninga sem hann hefur starfað að má nefna yfirlitssýningu um feril Ragnars Kjartanssonar, Guð, hvað mér líður illa, í Listasafni Reykjavíkur 2017, Sjónarhorn: varanlega sýningu íslenskrar listar og sjónrænnar arfleifðar í Menningarhúsinu í Reykjavík 2015, Æ ofan í æ: mynd um ævi og starf Hreins Friðfinnssonar í samvinnu við Ragnheiði Gestsdóttur 2014, Sequences myndlistarhátíðina í Reykjavík 2013, Að hugsa sér að vera hérna núna á Momentum – norræna tvíæringi nútímalistar í Moss 2011, og Endir, íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum 2009. Markús Þór er menntaður í sýningarstjórn og lauk námi við miðstöð sýningarstjórnar í Bard College 2007.

Um Nasher Sculpture Center
Nasher Sculpture Center er í hjarta listahverfisins í Dallas, Texas. Miðstöðin hýsir listasafn Raymond og Patsy Nasher, eitt stórkostlegasta safn módernískra og nútíma skúlptúra í heimi, þar sem meðal annars má finna yfir 300 meistaraverk eftir Calder, de Kooning, di Suveru, Giacometti, Gormley, Hepworth, Kelly, Matisse, Miró, Moore, Picasso, Rodin, Serra og Shapiro. 

Verk úr eigu safnsins eru til sýnis í björtum galleríum byggingarinnar sem hönnuð var af Renzo Piano og görðunum umhverfis hana. Auk þess eru haldnar þar aðrar mikilvægar skúlptúrasýningar.

Hlutverk Nasher-miðstöðvarinnar er að stuðla að rannsóknum, fræðslu og varðveislu módernískra og nútíma skúlptúra en hún stendur einnig fyrir fjölbreyttri fræðslu- og menningardagskrá í samvinnu við listasafn sitt og sérstakar sýningar. Þaðan eru ennfremur veitt Nasher-verðlaunin, árleg, alþjóðleg verðlaun veitt núlifandi listamanni í viðurkenningarskyni fyrir stórkostlegt framlag til skilnings fólks á skúlptúrum.

Auk gallería og sýningarsvæða utandyra má í miðstöðinni finna fyrirlestrasal, fræðslu- og rannsóknarými, kaffihús og verslun.
www.nashersculpturecenter.org

Um Listasafn Reykjavíkur
Listasafn Reykjavíkur er staðsett í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Þar  eru reglulega haldnar sýningar á verkum eftir þrjá af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, Erró, Kjarval og Ásmund Sveinsson.

Safnið býður jafnframt upp á fjölbreyttar innlendar og alþjóðlegar sýningar á nútíma- og samtímalist eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er einnig vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk. Sýningar Listasafns Reykjavíkur spanna allt frá hinu sögulega til samtímans og frá hinu hefðbundna að ystu mörkum listarinnar.

Sýningar safnsins standa vanalega í um þrjá til fjóra mánuði en nýjar sýningar eru opnaðar í upphafi árs, á vorin og á haustin. Verk safnsins eru einnig til sýnis í opinberum byggingum og á opnum svæðum víða um borgina. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkaeign borgarinnar, þ.á m. útilistaverkum, og hefur í fórum sínum mörg af þekktustu verkum íslenskra listamanna en í heildarsafneign þess eru rúmlega sautján þúsund verk.

Fjölbreytt menningarstarfsemi er í safninu en árlega eru yfir hundrað viðburðir á vegum þess, allt frá fyrirlestrum og málþingum til óhefðbundins tónleikahalds. Listasafn Reykjavíkur er í samstarfi við fjölmargar hátíðir og má þar nefna Listahátíð í Reykjavík, Menningarnótt, Hönnunarmars, Iceland Airwaves og Safnanótt.

Safnfræðsla er mikilvægur þáttur í starfseminni en á hverju ári heimsækja um þrettán þúsund grunnskólanemar safnið.
www.listasafnreykjavikur.is