Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefst 6. ágúst

Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefst 6. ágúst

Eftir langa bið er loksins komin í hús hin glæsilega sýning Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Er það starfsfólki safnsins tilhlökkunarefni að bjóða gesti velkomna á sýninguna. Því miður verður ekki formleg opnun á sýningunni eins og ráðgert var næstkomandi fimmtudagskvöld, 6. ágúst vegna takmarkana á samkomum. Sýningin er hinsvegar tilbúin og verður opin gestum frá fimmtudeginum 6. ágúst. Leyfi er fyrir 100 gestum í Hafnarhúsið hverju sinni og tryggt er að hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð og fara að fyrirmælum um sóttvarnir. 

Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION er einn stærsti viðburður Listasafns Reykjavíkur á árinu 2020 og á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Ráðgert var að opna sýninguna við opnun hátíðarinnar 6. júní. Opnunin 6. ágúst var jafnframt tengd Hinsegin dögum en eins og allir vita verða þeir ekki haldnir. Við hjá Listasafni Reykjavíkur erum afar ánægð með að sýningin sé loksins komin og munum halda upp á það með því að bjóða árskortshöfum og öðrum sem þess óska upp á mjög fámennar leiðsagnir.

Samhliða sýningunni er gefin út sýningarskrá yfir feril listmannanna með ítarlegu viðtali sýningarstjóranna, Daniels Birnbaum og Hans Ulrich Obrist við Gilbert & George. 

Á sýningartímabilinu verða ólíkir listamenn með leiðsagnir um sýninguna, þar á meðal Einar Falur Ingólfsson, Einar Örn Benediktsson, Ilmur Stefánsdóttir, Rakel McMahon og Ragnar Kjartansson. 

Saman eru breska listamannatvíeykið Gilbert & George eitt skapandi afl. Frá árinu 1968, í meira en fimm áratugi, hafa þeir unnið einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Nálgun þeirra hefur alltaf verið andstæð hvers kyns elítisma heldur skapað list fyrir alla. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilbert og George.

Sýningin er sérstaklega unnin fyrir Listasafn Reykjavíkur í góðu samstarfi við Luma safnið í Arles í Frakklandi, Luma Westbau safnið og Kunsthalle Zürich í Sviss og Moderna Museet í Stokkhólmi í Svíþjóð. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og henni stýra heimskunnir sýningastjórar, þeir Daniel Birnbaum, safnstjóri Moderna Museet í Stokkhólmi í Svíþjóð og Hans Ulrich Obrist, listrænn stjórnandi Serpentine Galleries í London í Bretlandi.

Sýningarskráin sem gefin er út samhliða sýningunni hefur að geyma náið samtal sýningarstjóranna við listamennina og myndir frá hálfrar aldar ferli tvíeykisins. Þar má sjá myndir af fyrstu verkum þeirra, þegar rúðunetsformið er áberandi og þeir voru hvað þekktasti fyrir. Snemma varð myndmálið flóknara, innblásið af symbólisma og allegóríu til að kanna þemu erótíkur, trúar og stjórnmála. Eins þótt list þeirra víki sér aldrei undan ofbeldi, dauða, fátækt og sársauka þess að standa utan samfélags er hún alltaf gáskafull og hlaðin óræðni. Í miðju grimmustu misklíða samfélagsins finna Gilbert & George fegurð og ástæður til að fagna lífinu.

Sýningin yfirtekur Hafnarhúsið, að undanskildum tveimur sölum, og stendur til 3. janúar 2021.