Gestum fjölgaði um 20% árið 2016

Aðsókn að Listasafni Reykjavíkur árið 2016 jókst um 20% frá árinu áður og ber þar mest á fjölgun erlendra ferðamanna. Opnaðar voru sextán sýningar á árinu og tugir viðburða þeim tengdum voru á dagskrá. Gestir og gangrýnendur hafa tekið sýningunum fagnandi og valdi Morgunblaðið Kjarvalssýninguna á Kjarvalsstöðum sýningu ársins.
Í upphafi 2017 leit nýr aðgöngumiði dagsins ljós og gildir hann eftir sem áður í safnhúsin þrjú, í Hafnarhús, á Kjarvalsstaði og í Ásmundarsafn – breytingin er sú að nú gildir hann í SÓLARHRING. Miðaverð hækkaði um 100 kr. um áramót en sólarhringsmiðinn ætti að koma til móts við þá hækkun. Safnið hefur einnig látið framleiða ný árskort sem kosta nú 3.600 kr. og einnig er Menningarkort Reykjavíkur í boði fyrir þá sem vilja ekki missa af neinu sem fram fer í Listasafni Reykjavíkur eða öðrum söfnum á vegum borgarinnar.
Áberandi er mikil aukning á notkun vefsíðu Listasafns Reykjavíkur en sem dæmi fjölgaði innlitum á listasafnreykjavikur.is um 75% í október 2016 miðað við sama mánuð 2015.
Áberandi hefur verið hversu vel gestir njóta sín á sýningu Yoko Ono í Hafnarhúsinu. Þar getur fólk spreytt sig á ýmsu, meðal annars að setja saman brotið postulín. Á hverjum degi bætir starfsfólk safnsins við 1-2 stórum kössum af postulíni svo efniviðurinn dugi hinum skapandi gestum.
Safnanótt er á næsta leiti og þá verður mikið um að vera í Listasafni Reykjavíkur fyrir unga sem aldna. #vetrarhatid #safnanott #listasafnreykjavikur #reykjavikloves
Verið hjartanlega velkomin í Listasafn Reykjavíkur!