Geimþrá framlengd

Áfram verður hægt að rýna í framfarir geimvísindanna, stjörnufræði, dulspekilegar víddir geimsins og vísindaskáldskap með augum fjögurra 20. aldar listamanna á sýningunni Geimþrá í Ásmundarsafni. Sýningin hefur hlotið frábærar viðtökur og var á lista Morgunblaðsins yfir fimm bestu sýningar ársins 2015. Þar eru verk eftir listamennina Ásmund Sveinsson (1893–1982), Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Leiðarstefið er áhugi þeirra á himingeimnum og vísindum. Verkin eru flest frá 6. og 7. áratugnum og vísa til tækniframfara þess tíma, í framtíðarsýn geimvísinda, en einnig til vísindaskáldskapar.

Ásmundur hreifst fyrst og fremst af framförum geimvísindanna, á meðan Sigurjón var áhugamaður um stjörnufræði. Gerður Helgadóttir kannaði dulspekilegar víddir geimsins en Jón Gunnar skoðaði hann frá sjónarhorni vísindaskáldskapar.

Á sýningunni hefur kúlunni verið breytt í stjörnuver, þar er hægt að horfa upp í geiminn og sjá hin ýmsu fyrirbæri alheimsins.