Frú Lauga Matstofa – nýr veitingastaður í Hafnarhúsi

Frú Lauga Matstofa hefur opnað nýjan kaffi- og veitingastað á 2. hæð í Hafnarhúsi. Matstofan er í umsjá Frú Laugu sem hefur getið sér gott orð fyrir verslun með ferskar matvörur frá íslenskum bændum og ýmislegt góðgæti frá meginlandinu. Með tilkomu matstofunnar býður Frú Lauga upp á holla og ljúffenga rétti úr gæðahráefni ásamt ítölskum náttúruvínum. Lífrænt kaffi og gómsætar kökur eru einnig á boðstólum.

Alla fimmtudaga kl. 18-22 verða haldin vínkvöld í Frú Laugu Matstofu þar sem gestir geta smakkað á úrvali þeirra vín- og bjórtegunda sem Frú Lauga flytur inn ásamt spennandi osta- og salamíbökkum.

Matstofan er opin alla daga kl. 10-17 og á fimmtudögum kl. 10-22.