21.12.2020
Friðarsúlan logar fram á vor

Friðarsúlan i Viðey verður tendruð að nýju í dag, mánudaginn 21. desember á stysta degi ársins á vetrarsólstöðum. Frá og með morgundeginum tekur daginn að lengja á ný.
Í ljósi aðstæðna í heiminum hefur verið ákveðið að í stað þess að slökkva á geislum súlunnar þegar nýtt ár hefur gengið í garð, eins og venjan er, lýsi Friðarsúlan upp skammdegið allt fram á jafndægur á vori í mars á næsta ári.
Friðarsúlan er listaverk eftir Yoko Ono sem hún tileinkaði eiginmanni sínum heitnum, tónlistarmanninum John Lennon. Friðarsúlan er tendruð á fæðingardegi hans, 9. október ár hvert og slökkt á henni á dánardegi hans 8. desember, en hann féll frá árið 1980.
Ljós Friðarsúlunnar sést vel á höfuðborgarsvæðinu en einnig má sjá hana í beinni útsendingu hér.