Friðarsúlan: Listaverk vikunnar og tendrun

Friðarsúlan: Listaverk vikunnar og tendrun

Listaverk vikunnar er Friðarsúlan eftir Yoko Ono frá 2007. Verkið er staðsett í Viðey.

Friðarsúlan verður tendruð í 13. sinn með friðsælli athöfn á fæðingardegi John Lennon miðvikudaginn 9. október klukkan 20.00. Boðið er upp á fríar ferjusiglingar og strætóferðir fyrir og eftir tendrunina. Viðeyjarstofa verður opin þar sem hægt verður að fá léttar veitingar fyrir og eftir tendrun. Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur og fleiri halda úti dagskrá sem hefst kl. 17.45 og stendur til kl. 21.00. Sjá viðburð.

Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono (1933) og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Verkið er í formi „óskabrunns“ en á hann eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er saman sett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi. Sex ljósgeislanna fara lárétt um göng á palli í kring um brunninn og er endurkastað upp á við með speglum. Pallurinn er þakinn þrenns konar íslensku grjóti – líparíti, grágrýti og blágrýti. 

Þann 9. október 2007 var listaverkið tileinkað minningu John Lennon sem hefði þá orðið 67 ára. Á hverju ári lýsir friðarsúlan frá 9. október (fæðingardegi Lennon) til 8. desember (dánardags hans). Einnig logar ljósið frá vetrarsólstöðum til nýársdags og eina viku að vori. Rafmagnið í súluna er framleitt úr jarðhita og kemur frá Hellisheiðarvirkjun.

Uppsetning friðarsúlunnar er samstarfsverkefni Yoko Ono, Reykjavíkurborgar, Listasafns Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.