Fögnuðu útkomu sýningarskrár

Hluti hópsins

Fjöldi myndlistarkvenna kom saman á Hótel Marina 13. desember 2016 til þess að fagna útkomu bæklings um sýninguna Kvennatími - Hér og nú þrjátíu árum síðar. Sýningin var á Kjarvalsstöðum árið 2015 og tóku á þriðja tug kvenna þátt. Þær endurtóku með sýningunni það að sýna allar saman, en árið 1985 sýndu þessar sömu konur verk sín undir heitinu Hér og nú. Sýningin var jafnframt einn umfangsmesti viðburður Listahátíðar kvenna sem efnt var til vegna loka kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur hátíðarinnar var að gera framlag kvenna á sviði lista- og menningar sýnilegt. Sýningin Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar snerist um að fylgja þessum hópi kvenna eftir og grennslast fyrir um hvað þær væru að fást við í listsköpun sinni. Í bókinni er fjallað um hverja myndlistarkonu fyrir sig og birtar myndir af verkum þeirra. Sýningarskráin er gefin út með stuðningi Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og Forsætisnefndar Reykjavíkurborgar. Harpa Björnsdóttir og Anna Jóa gefa sýningarskrána út, en Anna Jóa var jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar. Skráin verður fáanleg á Kjarvalsstöðum.