Fjórir listamenn valdir til að sýna í D-sal 2019

D34 María Dalberg: Suð

Listasafn Reykjavíkur hefur staðið fyrir sýningum efnilegra listamanna í D-sal frá árinu 2007 og fram að þessu hafa 34 listamenn sýnt þar. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna í fyrsta sinn að einkasýningu í opinberu listasafni og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins.

Í ár auglýsti Listasafn Reykjavíkur í fyrsta sinn eftir umsóknum um að sýna í D-sal á næsta ári. Viðtökurnar fóru langt fram úr björtustu vonum en safninu bárust yfir 130 umsóknir! Þar sem ráðgerðar eru fjórar sýningar í D-sal árið 2019 er ljóst að úr vöndu er að ráða fyrir dómnefndina. Það er einnig ljóst á öllum þessum fjölda umsókna að verkefnið er þakklátt og þessi mikli áhugi gefur Listasafni Reykjavíkur byr undir báða vængi um að halda áfram

Listamennirnir sem valdir voru til að sýna í D-sal á næsta ári eru Emma Heiðarsdóttir, Gunnar Jónsson, Ragnheiður Káradóttir og Steinunn Önnudóttir.

Á sýningunum eru kynntir til leiks listamenn sem hafa sterka og persónulega listræna sýn en hafa ekki áður haldið einkasýningu í opinberu safni. Með þátttöku í D-salar-röðinni gefst listamönnum tækifæri til að kynnast af eigin raun þeim innviðum sem opinbert listasafn styðst við í starfsemi sinni. Um leið opnast gestum safnsins innsýn í nýjar stefnur og strauma í samtímalist.

Sýningarnar í D-sal verða orðnar 35 í lok þessa árs, en næst í röðinni til að sýna þar er María Dalberg. Í lok nóvember tekur svo Leifur Ýmir Eyjólfsson við rýminu og stendur sýning hans út árið.