Fimmtánda Kærleikskúlan afhent á Kjarvalsstöðum

Egil Sæbjörnsson og Kærleikskúla ársins 2017.

Ūgh & Bõögâr eftir Egil Sæbjörnsson er Kærleikskúla ársins 2017. Þetta er í fimmtánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra selur Kærleikskúluna. Allur ágóði af sölunni rennur til sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal. 

Egill Sæbjörnsson (1973) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði einnig nám við St. Denis Háskólann í París. Egill er myndlistarmaður, gjörningalistamaður og tónlistamaður, allt í senn. Verk hans, kómísk, frumleg og tilraunkennd, hafa vakið verðskuldaða athygli og verið sýnd víða um heim. Egill var tilnefndur til Carnegie listverðlaunanna árið 2010 og var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2017.

Tröllin Ūgh og Bõögâr sitja fastir inn í Kærleikskúlu ársins Tröllin. Þau eru ímyndaðir vinir Egils og voru í aðalhlutverki á Feneyjartvíæringnum. Egill segir að þegar hann hafi fengið það verkefni að hanna Kærleikskúlu ársins hafi tröllin strax orðið mjög áhugasöm. „Þeir sögðu að þeir væru miklu betri í þessu en ég. Þeir urðu æstir og rifust síðan svo mikið um hvað ætti að vera á kúlunum að þeir festust inn í þeim,“ segir Egill.
Egill segir að það sé best að fara varlega með kúlurnar og passa að þær brotni ekki. „Þá gætu þessi gráðugu tröll sloppið út og kannski eyðilagt jólin fyrir manni,“ segir hann. Tröllin fylgja Agli hvert fótmál en nýlega settu þeir upp skartgripasýningu í Gallerí i8.

Kæreikskúlan verður til sölu dagana 6.-20. desember í Safnbúðum Listasafns Reykjavíkur, á Kjarvalsstöðum, í Hafnarhúsi og í Ásmundarsafni.

Upplýsingar um aðra sölustaði og hvernig má panta Kærleikskúluna og Kærleikskúlur fyrri ára má finna hér.