Fimm sýningaropnanir framundan í Listasafni Reykjavíkur

Fimm sýningaropnanir framundan í Listasafni Reykjavíkur

Haustið hjá Listasafni Reykjavíkur gefur tilefni til tilhlökkunar þar sem nýjar og spennandi sýningar opna hver af annarri næstu vikurnar. Við bjóðum ykkur að koma og njóta fimm ólíkra sýninga fjölmargra listamanna og opnum upp á gátt í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni.

Verið velkomin í Listasafn Reykjavíkur!

10. september: Unndór Egill Jónsson og Ásmundur Sveinson í Ásmundarsafni. Sýningin ber yfirskriftina Eftir Stórhríðina og sýnir Unndór Egill Jónsson verk sín í samtali við verk Ásmundar en safnið hefur nú um nokkurt skeið unnið með arfleifð Ásmundar á þennan hátt

24. september: Kjarvalssýning – haustsýning á verk listamannsins úr safneign.

1. október: Guðjón Ketilsson: Jæja – umfangsmikil yfirlitssýning á verkum Guðjóns þar sem farið er yfir feril hans. Öll eru verkin á mannlegum skala, þau spretta úr samspili hugar og handar og virka eins og framlenging á manneskjunni.

13. október: Norður og niður: Samtímalist á Norðurslóðum er samstarfssýning þriggja safna;  Listasafns Reykjavíkur, Portland Museum og Bildmuseet í Svíþjóð. Þrjátíu listamenn frá Norðuslóðum sýna ný verk sem takast á við þær breytingar sem eru að verða á samfélagi, náttúru og lífríki á norðurslóðum í upphafi 21. aldarinnar og eru að stórum hluta tilkomnar vegna loftslagsbreytinga.

20. október: Sigurður Guðjónsson er einn fremsti vídeólistamaður þjóðarinnar og er hann fulltrúi landsins á Feneyjartvíæringnum í ár. Á sýningunni eru bæði ný og eldri verk sett fram í Hafnarhúsi þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild.