Einar Benediktsson við Höfða

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók formlega á móti höggmynd af Einari Benediktssyni við Höfða, fyrrum heimili skáldsins, laugardaginn 31. október á Degi ljóðsins sem jafnframt var fæðingardagur skáldsins. Verkið er eftir Ásmund Sveinsson og var sett upp á Klambratúni árið 1964 þar sem það hefur staðið þar til nú.

Borgarráð samþykkti á síðasta ári að færa styttuna af Klambratúni og tók þannig undir áskorun frá áhugahópi um skáldið sem taldi að minningu Einars væri meiri sómi sýndur með því að koma verkinu fyrir í nágrenni Höfða þar sem hann bjó um tíma. 

Listasafn Reykjavíkur hafði umsjón með flutningi styttunnar en jafnframt veittu mennta- og menningarmálaráðuneytið, Eimskip, Hvalur hf., Landsvirkjun, Mjólkursamsalan, Síminn og áhugahópur um minningu skáldsins verkefninu mikilvægan stuðning.