Boð um þátttöku í tilurð listaverks

Arch

Viltu vera hluti af listrænu ferli og taka þátt í mótun nýs listaverks? Við munum skoða persónulega og sameiginlega sögu okkar og leita leiða til að túlka hana með list. Hvað hefur gerst í lífi okkar – líkamleg meiðsli, sálrænt áfall, samfélagslegt tráma? Hvaða áhrif hefur þetta á okkur í dag? Er hægt að umbreyta því í hreyfingu og form?

Við leitum að fólki sem hefur áhuga á að kanna þessar spurningar í skapandi samvinnuferli í nokkrum lokuðum, veflægum samtalslotum. Verkefnið er hluti af nýju verki sænska listamannatvíeykisins Gideonsson/Londré. Um leið og þau veita innsýn í listiðkun sína munu þau leiða þátttakendur í gegnum mismunandi æfingar og þróa þessa rannsókn í nánu og leikandi samtali. Byggt á þessum fundum mun Gideonsson/Londré búa til skúlptúr og gjörning fyrir sýninguna Иorður og niður sem verður opnuð 13. október í Listasafni Reykjavíkur

Tvíeykið Gideonsson/Londré, sem býr og starfar í þorpinu Kallror í Svíþjóð, skoðar í verkum sínum tengsl við tíma og líkama með gjörningum, innsetningum og inngripum. Hluti af sköpunarferli þeirra felst í því að staðsetja og nota líkamann á mismunandi hátt í stýrðum hversdagslegum athöfnum til þess að trufla sjálfráð hreyfimynstur. Að þeirra mati losar þessi nálgun um þekkingu og eiginleika sem geymdir eru í líkama okkar sem við kunnum að hafa misst samband við með tímanum.

Nánari upplýsingar veitir Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar í Listasafni Reykjavíkur: markus.thor.andresson@reykjavik.is