Bændasamtökin færa Listasafni Reykjavíkur vefnaðarverk Hildar Hákonardóttur að gjöf

Bændasamtökin hafa ákveðið að færa Listasafni Reykjavíkur vefnaðarverk Hildar Hákonardóttur, Árshringinn, að gjöf. Verkið er eitt af stærstu verkum listakonunnar og verður á meðal þeirra fjölmörgu listaverka sem sýnd verða á umfangsmikilli yfirlitssýningu á verkum Hildar sem opnuð verður á Kjarvalsstöðum 14. janúar.
Sýningin ber yfirskriftina Rauður þráður og er afrakstur rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur sem ætlað er að endurskoða hlut kvenna í íslenskri listasögu.
Bændasamtökin keyptu verkið af listakonunni árið 1984 og hékk það lengi á Hótel Sögu. Upphaflega var verkið í tólf hlutum sem táknuðu mánuði í árinu og gróður jarðar árið um kring.
Verkið hefur lengi verið í geymslu en sýnt opinberlega á nokkrum sýningum meðal annars í Kaupmannahöfn árið 2018. Þegar eigendaskipti urðu á Hótel Sögu nýverið fundust aðeins tíu hlutar verksins og verða þeir færðir Listasafni Reykjavíkur til varanlegrar varðveislu. Um afdrif hinna tveggja er ekki vitað og fagnar Listasafn Reykjavíkur upplýsingum um þau.
 
Myndin er tekin á Kjarvalsstöðum í dag, 6. janúar.
Frá vinstri: Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri, Hildur Hákonardóttir myndlistarmaður,
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og Sigrún Inga Hrólfsdóttir sýningarstjóri.