Ævintýralegar listsmiðjur í Viðey í sumar fyrir börn á aldrinum 8-13 ára

Listasafn Reykjavíkur og Bandaríska sendiráðið bjóða upp á ævintýralegar listsmiðjur í Viðey í sumar fyrir börn á aldrinum 8-13 ára í tengslum við sýninguna Áfanga á verkum bandaríska listamannsins Richard Serra í Hafnarhúsinu.
Listamennirnir og fjallaleiðsögumennirnir Margrét H. Blöndal, Ósk Vilhjálmsdóttir og Kolbeinn Hugi Höskuldsson sjá um smiðjurnar. Listsmiðjurnar verða alls fjórar og fara fram frá kl. 8.30–16.00 dagana 20.-24. júlí, 27.-31. júlí, 10.-14. ágúst og 17. -21. ágúst. Skráning á: info@halendisferdir.is. Frekari upplýsingar fást í síma: 864-0412.
Listsmiðjurnar standa í viku í senn þar sem áhersla er lögð á samband myndlistar við umhverfi sitt hvort sem það er náttúra eða manngert. Þátttakendur fá tækifæri til að njóta íslenskrar náttúru, teikna, mála, móta, skrá niður hugleiðingar sínar og tengja við aðra myndlistarmenn sem iðka ámóta aðferðir og vinnulag. Þeir heimsækja jafnframt sýningu Richard Serra Áfanga í Hafnarhúsinu og skoða samnefnt verk hans úti í Viðey.
Fatnaður: Vatnsheldur hlífðarfatnaður (buxur og stakkur), undirföt, þunn langerma peysa eða skyrta, lopapeysa eða þykk flíspeysa, vettlingar, húfa og/eða buff.
Nesti: Mikilvægt er að börnin séu vel nestuð; með morgun, hádegis- og síðdegisnesti.
Innifalið í námskeiðsgjaldi:
Tveir myndlistarkennarar / leiðsögumenn.
Aðstaða í Viðey.
Allt efni fyrir myndlist og náttúruskoðun. Bátsferðir daglega.