Ratleikur um Breiðholt

Ratleikur um Breiðholt

Rafrænn kennslupakki um útilistaverk úr safneign Listasafns Reykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með 183 útilistaverkum víðsvegar um Reykjavík. Útilistaverkin í borginni gefa listsögulegt yfirlit íslenskrar höggmyndalistar á 20. öld. 

Í aðalnámsskrá grunnskólanna eru læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi nefnd sem grunnþætti menntunar. Það að skoða myndlist í almenningsrými veitir tækifæri til að skerpa á þessum grunnþáttum, örva myndlæsi og ræða um samábyrgð í þróun samfélags. Þátttaka í samfélagi felst meðal annars í því að læra af listaverkum á virkan hátt. Verkefninu er ætlað að auka fjölbreytileika í kennsluháttum og sameina spennandi umhverfi, upplifun og fræðslu. Ratleikur um Breiðholt er fyrsti hluti verkefnisins. 

Markmiðið er að vekja nemendur til umhugsunar um listaverkin og skapa tækifæri fyrir nemendur og kennara til þess að kynnast betur þeim tíu útilistaverkum sem staðsett eru í Breiðholti og listamönnum sem sköpuðu þau. Sjónum er beint að útliti listaverkanna, einkennum þeirra og innihaldi út frá ólíkum námsgreinum. Meðvitund um nánasta umhverfi getur dýpkað skilning og skapað aukna tengingu og áhuga á umhverfi sínu. Verkefnið er skrifað af listgreinakennurunum Ásdísi Spanó og Hugrúnu Þorsteinsdóttur í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.