Hugmyndasmiðjan

Hugmyndasmiðjan er staðsett á Kjarvalsstöðum og er sérstaklega hönnuð til að veita börnum og fullorðnum innblástur. Í hugmyndasmiðjunni er hægt að skoða og rannsaka myndlist, uppgötva eitthvað nýtt og verða fyrir áhrifum. Hugmyndasmiðjan er einnig vettvangur fyrir eigin sköpun þar sem blöð og blýantar eru til staðar. Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir hannaði Hugmyndasmiðjuna og þar er einnig veggverk eftir listamanninn Huginn Þór Arason. 

Æfðu ímyndunaraflið!
Í Hugmyndasmiðjunni er að finna Innblástursbókasafn sem er vaxandi safn forvitnilegra bóka sem fjölmargir listamenn og hönnuðir hafa sérstaklega mælt með í þeirri von að þær kveiki nýjar hugmyndir og veiti öðrum innblástur. Safninu er ætlað að örva ímyndunaraflið og veita innsýn í heim starfandi listamanna.

ÖR-smiðjur
Reglulega er boðið upp á smiðjur fyrir yngstu gesti safnsins. Smiðjurnar eru haldnar undir leiðsögn listamanna og í tengslum við þær sýningar sem standa yfir á Kjarvalsstöðum hverju sinni. Smiðjurnar eru auglýstar í viðburðardagatali á heimasíðu safnsins. Markmiðið með þeim er að krakkar á ólíkum aldri fá tækifæri til að spreyta sig á hinum ýmsu listformum undir leiðsögn listamanna.

 

Hugmyndasmiðjan