Grunnskólar

Tekið er á móti grunnskólanemum í öllum safnhúsum, Ásmundarsafni, Kjarvalsstöðum og Hafnarhúsinu virka daga frá kl. 8 – 16. Heimsókn í söfnin tekur eina til tvær kennslustundir og er skólum að kostnaðarlausu. Tekið er á móti einum bekk í einu.

Söfn eru góður vettvangur til óformlegs náms þar sem líflegar umræður geta átt sér stað um ólík þekkingarsvið. Með safnfræðslu er reynt að skapa vettvang þar sem nemendur geta tekið þátt í umræðum og brugðist við margbreytileika og áskorun samtímalistarinnar. Hægt er að fá allar nánari upplýsingar í síma 411 6400 eða á fraedsludeild@reykjavik.is

Sérverkefni fyrir grunnskóla
Flestar sýningar safnanna gefa tilefni til vinnu með nemendum en innan fræðsludeildar hefur verið lögð sérstök áhersla á verkefni um Ásmund Sveinsson fyrir 4. bekk, um Kjarval fyrir 6. bekk og um Erró fyrir 7. og 8. bekk. Verkefnið og leiðsögn er skólum að kostnaðarlausu. Með sérverkefnunum er boðið upp á akstur á safnið fyrir nemendur grunnskóla Reykjavíkur frá 1. september til 1. júní.

4. bekkur – Ásmundarsafn
Nemendum 4. bekkjar er boðið að kynnast verkum Ásmundar Sveinssonar í Ásmundarsafni. Þegar nemendur heimsækja safnið fá þeir leiðsögn og verkefni. Verkefnið felst í því að nemendur velja eitt listaverk, rýna í það, móta sér skoðun og skissa upp það sjónarhorn sem þeim þykir áhugavert. Verkefnið er unnið á staðnum og því er ætlað að varpa ljósi á listamanninn, samtíð hans og viðfangsefni.

6. bekkur – Kjarvalsstaðir 
Nemendum 6. bekkjar er boðið í heimsókn á Kjarvalsstaði þar sem þeir fá leiðsögn um sýningu á lykilverkum Jóhannesar S. Kjarvals auk verkefnis til að vinna á safninu. Verkefnið veitir innsýn í ævistarf Kjarvals sem var einn af frumkvöðlum íslenskrar málaralistar. Nemendur skoða tækni og viðfangsefni listamannsins auk þess sem þeir fræðast um áhrif hans á menningarlíf á Íslandi.

7. og 8. bekkur – Hafnarhúsið 
Nemendum 7. og 8. bekkjar er boðið í heimsókn í Hafnarhúsi þar sem þeir fá leiðsögn og innsýn í list Errós (f. 1932). Áleitinn myndheimur hans og myndmál popplistarinnar höfða sérstaklega til unglinga sem verða fyrir miklu sjónrænu áreiti í sínu daglega lífi. Nemendur fá leiðsögn um sýninguna og námsefni sem þau vinna á safninu. Verkefnið felst meðal annars í að skoða myndmál listamannsins og æfa sig í að lesa úr því.