Skapandi hugsun
Upplifun á safni er hvetjandi fyrir skapandi hugsun og góð tilbreyting frá hefðbundnu kennslurými. Kjarni starfsemi fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur er að beina athyglinni að listinni og þeim fjölbreyttu aðferðum og ólíku hugmyndum sem þar er að finna. Safnkennarar skapa tækifæri fyrir gesti með mismunandi þarfir, reynslu og áhugamál til að mynda þroskandi tengsl við listina og hvetja þá til að hugsa á skapandi hátt. Safnfræðsla í listasafni gefur kost á að víkka sjóndeildarhringinn og er kjörinn vettvangur til óformlegs náms.

Tilgangur og tengingar
Sýningarnar eru margar og í þeim felast mismunandi tækifæri til fræðslu og fjölbreyttar tengingar við námsefni hverju sinni. Safnkennarar Listasafns Reykjavíkur eru með fjölbreyttan bakgrunn á sviði kennslufræði, hönnunar, listfræði, myndlistar og safnafræði. Þeir eru reiðubúnir til að fara í samvinnu við áhugasama kennara sem vilja nýta sér sýningar hjá okkur til náms, hvort sem um er að ræða einstaka heimsókn eða heimsóknaröð fyrir nemendahópa.

Fyrirkomulag
Safnfræðsla í formi leiðsagna er veitt skólum að kostnaðarlausu. Lykilatriði er að bóka heimsókn með góðum fyrirvara. Listasafn Reykjavíkur starfar á þremur stöðum í borginni: í Ásmundarsafni, í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Einfaldasta leiðin til að bóka tíma og nálgast upplýsingar um sýningar er hér á heimasíðu undir flýtileiðinni „Panta leiðsögn“ sem fer beint inn á síðu fyrir skóla, almenning og Flökkusýningar safnsins. Beiðni er fyllt út og er henni svarað eins fljótt og hægt er. Nánari upplýsingar í síma 411 6400 eða á fraedsludeild hjá reykjavik.is.

Tekið er á móti skólahópum alla virka daga í söfnunum frá kl. 8:30–16:00 eða eftir samkomulagi.
Heimsóknin tekur eina til tvær kennslustundir en semja má um lengri heimsókn sé þess óskað.
Hámarksfjöldi nemenda í hópi er einn bekkur (um 30 nemendur).
 

Í öllum safnhúsunum; Kjarvalsstöðum, Ásmundarsafni og Hafnarhúsinu er tekið á móti hópum framhaldsskólanema og þeim veitt leiðsögn. Tekið er á móti hópum mánudaga - föstudaga milli kl. 8 og 16. 

Tekið er á móti grunnskólanemum í öllum safnhúsum, Ásmundarsafni, Kjarvalsstöðum og Hafnarhúsinu virka daga frá kl. 8 – 16. Heimsókn í söfnin tekur eina til tvær kennslustundir og er skólum að kostnaðarlausu. Tekið er á móti einum bekk í einu.

Forvitni – Spuni – Nám

Í söfnunum er tekið á móti hópum leikskólabarna frá mánudegi til föstudags milli klukkan 8 og 16. Leiðsögn um sýningar er skólunum að kostnaðarlausu. Hámarksfjöldi barna í hóp er 25. 

Í öllum safnhúsum okkar er tekið á móti háskólanemum og þeim veitt leiðsögn. Við bendum kennurum á að kynna sér sýningadagskrána og bóka tíma með góðum fyrirvara. Á vegum fræðsludeildar er sérstaklega tekið á móti kennaranemum og nemum í uppeldis- og kennslufræði og þeim kynnt hvernig þeir geta nýtt safnið þegar þeir hefja störf.