Flökkusýningar

Grunnskólum stendur til boða að fá sérhannaðar fræðslusýningar að láni til sín í skólana. Um er að ræða tvær kistur sem opnast í lítið sýningarrými sem hægt er að setja upp í kennslustofu eða opnu rými í skólanum. Hver flökkusýning inniheldur um tíu listaverk og kemur í sérhönnuðum kistum á hjólum sem eru 180 cm á hæð, 70 cm á breidd og 165 cm á lengd þegar þær eru lokaðar, en verða um 8 m2 rými þegar þær eru opnar.

Markmið flökkusýninganna og meðfylgjandi fræðsluefnis er að veita kennurum innblástur og stuðning við kennslu. Hægt er að tengja listaverkin við nám í sjónlistum og einnig sem námsvettvang í þverfaglegu námi og tengja inn í þau verkefni sem verið er að vinna hverju sinni. Auðvelt er að tengja þemað inn í mörg af hæfniviðmiðum aðalnámskrár t.d. í samfélagsfræði og heimspeki, sem og í umræðum um sköpun og túlkun almennt á umhverfi sínu. Það tengist svo sannarlega inn í mörg meginmarkmið aðalnámskrár, s.s. grunnþætti hennar eins og sköpun og sjálfbærni. Einnig má tengja efni þessarar sýningar við réttindi barna sem koma fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Grunnskólum Reykjavíkur býðst að fá flökkusýningarnar endurgjaldslaust. Skólar annarra sveitarfélaga þurfa að greiða trygginga- og flutningskostnað en leiðsögn safnkennara fylgir frítt með á Reykjavíkursvæðinu. Nánari upplýsingar á hopar.listasafnhjareykjavik.is

Flökkusýning 1: Heima

Heima er orð sem hefur víðtæka merkingu og er í huga fólks oft tengt jákvæðum tilfinningum og minningum. Myndlistarmenn hafa í gegnum tíðina fjallað um hugtakið heima á margvíslegan hátt. Hvar á maður heima? Í alheiminum, á jörðinni, á Íslandi, úti á landi, í Stykkishólmi, í hverfinu, í blokkinni, í húsinu, í íbúðinni, hjá foreldrum sínum, hjá börnunum sínum, hjá afa og ömmu,  í vinahópnum, í skólanum, í frístundastarfinu, í vinnunni, í hægindastólnum? Eða kannski á nokkrum stöðum samtímis?

Orðið heima hefur gjarnan tilvísun í umhverfi þar sem við erum örugg. Þó finna sumir ekki til öryggis á heimilum sínum. Orsök þess getur verið inni á heimilinu, s.s. streita,  fíknvandamál og heimilisofbeldi, eða utanaðkomandi ógnir eins og heimsfaraldur, fátækt eða stríð. Heima er ekki eins fyrir alla. 

Við bjóðum ykkur heim í stofu gleði og öryggis þar sem listaverkin hanga á veggjunum, bjóðum nemendum og kennurum að ganga inn og njóta myndlistarinnar í hlýlegu og heimilislegu umhverfi, í sínum eigin skóla.

Fræðslupakki: Heima

Flökkusýning 2: Erró – Myndheimar

Sýningin Erró – Myndheimar fjallar um myndlist listamannsins Guðmundar Guðmundssonar – Errós og hvernig hann notar myndheim samtímans sem efnivið í verk sín. Klippimyndir eru helsti miðill Errós, þar sem meginhluti skapandi ferlisins fer fram, en hann vinnur oftar en ekki lengra með klippimyndirnar og yfirfærir þær yfir í stærri málverk, grafíkverk eða stafrænt prent og fleiri efni, myndaraðir og þemu. Erró segir: „Myndirnar, allar þessar myndir sem maður getur unnið úr – það er auðlegð nútímans. Að hugsa sér hvað við erum heppin að eiga þennan ótæmandi forða“. Það er ljóst að við erum í sífellt ágengari myndheimi í nútímasamfélagi. Myndlæsi er mikilvæg hæfni sem Aðalnámskrá grunnskóla telur að þurfi að þjálfa í grunnnámi. Erró - Myndheimar er sýning sem tekur á margræðan hátt á því verkefni og er gott verkfæri til að virkja þá hæfni.

Sýningunni fylgir fræðslupakki fyrir kennara, með upplýsingum um verkin á sýningunni og tillögum að umræðupunktum til myndlæsisþjálfunar.

 

 

Flökkusýningin Heima