Flökkusýningar

Grunnskólum stendur til boða að fá sérhannaðar fræðslusýningar að láni til sín í skólana. Um er að ræða tvær kistur sem opnast í lítið sýningarrými sem hægt er að setja upp í kennslustofu eða opnu rými í skólanum. Hver flökkusýning inniheldur um tíu listaverk og kemur í sérhönnuðum kistum á hjólum sem eru 180 cm á hæð, 70 cm á breidd og 165 cm á lengd þegar þær eru lokaðar, en verða um 8 m2 rými þegar þær eru opnar.

Markmið flökkusýninganna og meðfylgjandi fræðsluefnis er að veita kennurum innblástur og stuðning við kennslu. Hægt er að tengja listaverkin við nám í sjónlistum og einnig sem námsvettvang í þverfaglegu námi og tengja inn í þau verkefni sem verið er að vinna hverju sinni. Auðvelt er að tengja þemað inn í mörg af hæfniviðmiðum aðalnámskrár t.d. í samfélagsfræði og heimspeki, sem og í umræðum um sköpun og túlkun almennt á umhverfi sínu. Það tengist svo sannarlega inn í mörg meginmarkmið aðalnámskrár, s.s. grunnþætti hennar eins og sköpun og sjálfbærni. Einnig má tengja efni þessarar sýningar við réttindi barna sem koma fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Grunnskólum Reykjavíkur býðst að fá flökkusýningarnar endurgjaldslaust. Skólar annarra sveitarfélaga þurfa að greiða trygginga- og flutningskostnað en leiðsögn safnkennara fylgir frítt með á Reykjavíkursvæðinu. Nánari upplýsingar á fraedsludeild hjá reykjavik.is.

Flökkusýning 1: Heima

Heima er orð sem hefur víðtæka merkingu og er í huga fólks oft tengt jákvæðum tilfinningum og minningum. Myndlistarmenn hafa í gegnum tíðina fjallað um hugtakið heima á margvíslegan hátt. Hvar á maður heima? Í alheiminum, á jörðinni, á Íslandi, úti á landi, í Stykkishólmi, í hverfinu, í blokkinni, í húsinu, í íbúðinni, hjá foreldrum sínum, hjá börnunum sínum, hjá afa og ömmu,  í vinahópnum, í skólanum, í frístundastarfinu, í vinnunni, í hægindastólnum? Eða kannski á nokkrum stöðum samtímis?

Orðið heima hefur gjarnan tilvísun í umhverfi þar sem við erum örugg. Þó finna sumir ekki til öryggis á heimilum sínum. Orsök þess getur verið inni á heimilinu, s.s. streita,  fíknvandamál og heimilisofbeldi, eða utanaðkomandi ógnir eins og heimsfaraldur, fátækt eða stríð. Heima er ekki eins fyrir alla. 

Við bjóðum ykkur heim í stofu gleði og öryggis þar sem listaverkin hanga á veggjunum, bjóðum nemendum og kennurum að ganga inn og njóta myndlistarinnar í hlýlegu og heimilislegu umhverfi, í sínum eigin skóla.

Fræðslupakki: Heima

Flökkusýning 2: Skyggni ágætt – Sjálfbærni krefst skapandi hugsunar

Sýningin Skyggni ágætt – sjálfbærni krefst skapandi hugsunar fjallar um samspil manns og náttúru. Sjálfbærnihugtakið snýr að því að hugsa um/skoða samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.  Sjálfbærni er einn af grunnþáttum Aðalnámskrár og því hægt að tengja sýninguna vel inn í ótal mismunandi viðfangsefni skólastarfs.

Verkin á sýningunni eru ólík og þar er að finna fjölbreytta miðla á borð við málverk, textíl, myndbandsverk og teikningar. Verkin snerta umfjöllunarefni sýningarinnar á mismunandi hátt en rauði þráður hennar er umhverfi okkar og samspil manns og náttúru. Til dæmis byggist eitt listaverkið á vindáttinni og í öðru ráðast litir listaverksins af jurtunum sem vaxa á landareign höfundar. Enn eitt verkið sýnir landslag sem listamaðurinn lagði á minnið á göngu sinni í náttúrunni.

Við bjóðum nemendum og kennurum í samtal um sjálfbærni sett fram á skapandi hátt að hætti myndlistarmanna, í kunnuglegu umhverfi síns eigin skóla.  

Fræðslupakki: Skyggni ágætt – Sjálfbærni krefst skapandi hugsunar

Flökkusýningin Heima