Flökkusýning

Flökkusýning 1: Hvað er svona fyndið?

Fáðu flökkusýningu frá Listasafni Reykjavíkur lánaða í skólann

Grunnskólum Reykjavíkur býðst að fá tvær flökkusýningar til láns í 2–3 vikur ásamt fræðslupakka og kynningu á mögulegri notkun sýninga og verkefna. Fræðslupakkarnir eru unnir af kennurum með bakgrunn í myndlist og listfræði og verkefnin tengd námskrám. Flökkusýningarnar eru í sérhönnuðum kistum á hjólum sem eru 180 cm á hæð, 70 cm á breidd og 165 cm á lengd þegar þær eru lokaðar. 

Þegar sýningin hefur verið sett upp er hver veggur um 235 cm á lengd. Hver sýning er í tveimur kistum sem raðast saman í u.þ.b. 10 metra af sýningarrými og rúmar um 8–12 listaverk.

Flökkusýning 1: Hvað er svona fyndið?

Verkefni í fræðslupakka eru ætluð og mið- og efsta stigi sem nýta má í mörgum fögum. Sýningin fjallar um hvernig húmor hefur ólíkar birtingarmyndir í myndlist. Húmor er margslungið menningarlegt fyrirbæri. Húmor er til í öllum samfélögum en það er ekki alltaf auðvelt að koma auga á brandarann. Á flökkusýningunni mætast húmor og myndlist í verkum eftir ýmsa íslenska listamenn úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Öll verkin eiga það sameiginlegt að hafa að geyma einhverskonar húmor en sumir myndu kannski spyrja; Hvað er svona fyndið?

Sýningin tekur fyrir snertifleti myndlistar og sjálfbærni þar sem spurningum er velt upp um hvernig hægt sé að rýna í myndlist og ræða sjálfbærni um leið.

Flökkusýning 2: Skyggni ágætt – Sjálfbærni krefst skapandi hugsunar

Sýningin Skyggni ágætt – Sjálfbærni krefst skapandi hugsunar fjallar um samspil manns og náttúru og er ætluð yngsta- og miðstigi í myndmennt og náttúrufræði. Listaverkin fjalla um náttúruna og mismunandi sýn myndlistamanna á viðfangsefnið. Um málverk, ljósmyndir, teikningar og skjáverk er að ræða sem bjóða upp á marga möguleika í samþættingu myndmenntar og náttúrufræði. Markmið þessa fræðslupakka er að veita kennurum innblástur og stuðning við kennslu, bæði til að tengja listaverkin við nám í sjónlistum en einnig er rík áhersla lögð á hugtakið sjálfbærni sem þýðingarmikill liður í menntun samtímans og einn af grunnþáttum Aðalnámskrár.

Grunnskólum Reykjavíkur býðst að fá flökkusýningarnar endurgjaldslaust. Skólar annarra sveitarfélaga þurfa að greiða tryggingar og flutningskostnað. 

Fyrirspurnir: fraedsludeild hjá reykjavik.is

Hér má finna fræðsluefni fyrir sýningarnar: