Perlufesti

Hafmeyjan

Höggmyndagarðurinn Perlufesti var opnaður þann 19. júní 2014 en hann er til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði garðinn við hátíðlega athöfn í suðvesturhorni Hljómskálagarðsins.

Garðurinn hlaut nafnið Perlufesti að tillögu Gjörningaklúbbsins. Nafnið vísar til hringlaga afstöðu verkanna til hvers annars í garðinum, en undirstrikar einnig að listakonurnar og verk þeirra eru sérstök hvert fyrir sig, líkt og perlur sem hafa verið þræddar upp á þráð.

Í garðinum eru höggmyndir eftir sex konur sem voru frumkvöðlar í höggmyndalist hér á landi, þær Gunnfríði Jónsdóttur (1889–1968), Nínu Sæmundsson (1892-1962), Tove Ólafsson (1909-1992), Þorbjörgu Pálsdóttur (1919-2009), Ólöfu Pálsdóttur (1920) og Gerði Helgadóttur (1928-1975). Verkin sem um ræðir eru: Landnámskonan eftir Gunnfríði, Hafmeyjan eftir Nínu, Maður og kona eftir Tove, Piltur og stúlka eftir Þorbjörgu, Sonur eftir Ólöfu og Nafarinn eftir Gerði.

Listasafn Reykjavíkur hafði listræna stjórn og umsjón með verkefninu. Í greinargerð Hafþórs Yngvasonar, þáverandi safnstjóra, segir að garðurinn sé minnisvarði um það mikilvæga frumherjastarf sem konurnar unnu á tímum þegar lítill skilningur var á að þær legðu fyrir sig listsköpun. Höggmyndagarður í miðborg Reykjavíkur sé til þess að undirstrika stöðu listkvennanna sem formæðra sameiginlegrar listhefðar allra landsmanna. Höggmyndirnar koma frá opinberum- og einkaaðilum sem styrkja verkefnið. Listasafn Reykjavíkur á þrjár myndir og Listasafn Íslands leggur til tvær myndir. Þá færði verslunarmiðstöðin Smáralind Reykjavíkurborg Hafmeyjuna að gjöf.