Tónlistarhátíð Rásar 1: Deilt með tveimur | listasafnreykjavikur.is
28. október 2017 - 15:00

Tónlistarhátíð Rásar 1: Deilt með tveimur

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Tónleikaröð með fjórum, þriggja manna hópum framúrskarandi listamanna 

Listamenn: 
Tónleikar #1: Elfa Rún Kristinsdóttir, Matthias Halvorsen og Bára Gísladóttir
Tónleikar #2: Davíð Þór Jónsson, Bjarni Frímann Bjarnason og Siggi Rallý
Tónleikar #3: Hafdís Bjarnadóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Berglind María Tómasdóttir
Tónleikar #4: Hildur Guðnadóttir, Margrét Bjarnadóttir og Elín Hansdóttir

Í beinni útsendingu á Rás 1 og myndstreymi á rúv.is.

Samstarfsaðilar: Listasafn Reykjavíkur, Tónskáldasjóður RÚV.

Umsjón og listræn stjórnun: Berglind María Tómasdóttir.

Kynnar í beinni útsendingu: Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Guðni Tómasson.

Deilt með tveimur er Tónlistarhátíð Rásar 1 í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Tónskáldasjóð Ríkisútvarpsins sem fram fer í Hafnarhúsinu á sjálfan kosningadaginn 28. október. 

Upplegg hátíðarinnar er með þeim hætti að margrómaðir íslenskir tónlistarmenn voru beðnir um að velja sér tvo listamenn til samstarfs hver og mynda þannig fjóra þriggja manna hópa. Skilyrðið var að um nýtt samstarf væri að ræða og þeir tónlistarmenn sem leitað var til voru beðnir um að deila þessum vettvangi með tveimur öðrum sem þeir hefðu ekki unnið með áður í sambærilegu samhengi. Afraksturinn mun svo hljóma á fernum tónleikum þar sem að langstærstum hluta verða frumfluttar nýjar tónsmíðar. 

Tónleikarnir verða í beinni útsendingu á Rás 1 og í myndstreymi á RÚV.is. Kynnar eru Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Guðni Tómasson.

Hópaskipanin er þessi: 

Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari fékk með sér norska píanóleikarann Mathias Halvorsen og saman pöntuðu þau verk hjá Báru Gísladóttur tónskáldi sem frumflutt verður á hátíðinni auk þess sem þau flytja verk eftir Xenakis, Sciarrino og John Adams.

Því næst er hópur skipaður Davíð Þór Jónssyni píanóleikara og tónskáldi sem valdi með sér Bjarna Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóra og Sigurð Óla Gunnarsson bassaleikara og rallýökumann sem einnig er þekktur undir nafninu Siggi rallý. 

Þriðja hópinn skipa Berglind María Tómasdóttir tónlistarmaður, Hafdís Bjarnadóttir tónskáld og gítarleikari og Bergrún Snæbjörnsdóttir tónskáld.

Loks er það Hildur Guðnadóttir tónskáld og sellóleikari sem fékk til liðs við sig Margréti Bjarnadóttur danshöfund og Elínu Hansdóttur myndlistarmann. 

***************************************

EFNISSKRÁR TÓNLEIKANNA

Tónleikar #1  - kl. 15:30

Elfa Rún Kristinsdóttir fiðla, Mathias Halvorsen píanó, Bára Gísladóttir, tónskáld.

• Road Movies eftir John Adams
• Sonatine eftir Salvatore Sciarrino
• Prussian Blue eftir Báru Gísladóttur (frumflutningur) 
• Dikhtas eftir Iannis Xenakis

Tónleikar #2 - kl. 16:45

Davíð Þór Jónsson, Bjarni Frímann Bjarnason og Sigurður Óli Gunnarsson (Siggi rallý)

• Lágmenningarsvíta í 4 þáttum (nýtt frumsamið verk)

— Hlé — 

Tónleikar #3 - kl. 18:30

Berglind María Tómasdóttir, Hafdís Bjarnadóttir, Bergún Snæbjörnsdóttir

• Hyrnan III eftir Hafdísi Bjarnadóttur 
• Konsert fyrir horn, lokk og rokk eftir Berglind Maríu Tómasdóttur
• Nýtt verk eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur

Tónleikar #4 - kl. 19:45

Hildur Guðnadóttir, Elín Hansdóttir og Margrét Bjarnadóttir. Sérstakur gestur: Skúli Sverrisson

• Ryk o.fl. - nýtt frumsamið verk

UM FLYTJENDUR

Elfa Rún Kristinsdóttir býr og starfar í Þýskalandi þar sem hún leikur með ýmsum kammersveitum, má þar nefna Akademie für Alte Musik Berlin, Solistenensemble Kaleidoskop, Balthasar Neumann Ensemble, Freiburger Bachorchester, Feldkirch Festival Orchester og Camerata Stuttgart. Elfa Rún hlaut fyrstu verðlaun í Johann Sebastian Bach tónlistarkeppninni í Leipzig árið 2006. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem bjartasta vonin árið 2006 og plata hennar, sem inniheldur Fantasíur Telemanns, var valin plata ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar árið 2014. 

Mathias Halvorsen er norskur píanóleikari sem búsettur er í Reykjavík. Mathias kemur reglulega fram í ýmsu samhengi í heimalandi sínu og á meginlandi Evrópu auk þess sem hann stýrir tónlistarhátíðinni Podium í Haugesund í Noregi. 

Bára Gísladóttir er kontrabassaleikari og tónskáld sem búsett er í Kaupmannahöfn þar sem hún stundar nám í tónsmíðum við Konunglega konservatoríið. Bára hefur sent frá sér tvær sólóplötur auk þess sem verk eftir hana hafa verið flutt af hópum á borð við Ensemble Intercontemporain, Danish Symphony Orchestra og Duo Harpverk.

Davíð Þór Jónsson hefur fyrir löngu skapað sér nafn sem einn af markverðari slaghörpuleikurum þjóðarinnar. Hann hefur sent frá sér þrjár einleiksplötur og tekið þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum, ber þar helst að nefna farsælt samstarf hans við Ragnar Kjartansson myndlistarmann. 

Bjarni Frímann Bjarnason hóf að leika á fiðlu fjögurra ára gamall og stundaði nám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands vorið 2009. Hann stundaði nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín. Vorið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Sama ár hlaut hann undirleikara¬verðlaunin í ljóðasöngkeppni sem kennd er við Paulu Salomon-Lindberg í sömu borg. Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann stjórnar strengjasveitinni Skark sem hefur á undanförnum árum staðið fyrir nýstárlegum flutningi nútímatónlistar en hefur einnig stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur.

Sigurður Óli Gunnarsson er með BLS-próf frá Laugum í Sælingsdal. Hann er jeppasmiður og rallýökumaður, og starfar sem verkúttektarmaður hjá kaldavatnsdeild Orkuveitu Reykjavíkur.

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á hátíðum víðs vegar í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Hún lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands. 

Bergrún Snæbjörnsdóttir er íslenskt tónskáld sem búsett er í Oakland, Kaliforníu og í Reykjavík. Verk hennar eru með þverfaglegu sniðu og hafa verið flutt af sveitum á borð við Oslóarfílharmóníuna, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Avanti! Chamber Orchestra. Bergrún er með meistaragráðu í tónsmíðum frá Mills College þar sem hún nam hjá Fred Frith, Zeena Parkins, Pauline Oliveros og Roscoe Mitchell. Einnig hefur hún víðtæka reynslu sem flytjandi nýrrar tónlistar og liðsmaður í böndum Bjarkar og hljómsveitinni Sigur Rós á ferðum þeirra um heiminn.

Hafdís Bjarnadóttir er rafgítarleikari og tónskáld með bakgrunn í rokki, djassi og nútímatónlist. Eftir að hafa lokið rafgítarprófi frá djassdeild Tónlistarskóla FÍH árið 2002 lagði hún leið sína í Listaháskóla Íslands þar sem hún lauk BA-prófi úr tónsmíðadeild árið 2007. Sumarið 2009 lauk Hafdís meistaraprófi í tónsmíðum frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Hafdís hefur unnið margs konar tónverk og innsetningar, m.a. upp úr línuritum og prjónauppskriftum. Hún hefur gefið út nokkrar sólóplötur sem allar hafa hlotið lof gagnrýnenda og góðar viðtökur. Tónlist Hafdísar hefur verið flutt víða og af ýmsum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Álaborgar, SCENATET, Norbotten Neo, Esbjerg ensemble, Uusinta ensemble og CAPUT.

Innsetningar Elínar Hansdóttur, sem byggðar eru fyrir tiltekin rými, taka á sig margvíslegar myndir. Nefna má hljóð- og/eða sjónrænar blekkingar, göng í ætt við völundarhús og byggingarfræðilega þætti sem myndast fyrir tilstilli hreyfingar. Með því að gjörbylta venjulegu rými í eitthvað sem tekur öllum væntingum fram og virðist einungis eiga sér stað á tilteknu augnabliki í tíma, skapar hún heildstæða heima sem virðast lúta sínum eigin lögmálum. Innsetningar sínar hefur hún m.a. skapað fyrir nokkur alþjóðleg sýningarrými, svo sem KW Institute for Contemporary Art, Frieze Projects í London, ZKM í Karlsruhe, Þýskalandi, Den Frie Udstillingsbygning í Kaupmannahöfn, Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur.

Hildur Guðnadóttir hefur sent frá sér fjórar sólóplötur sem allar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda jafnt innanlands sem utan. Without Sinking var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta plata ársins 2009 og var Hildur tilnefnd sem tónskáld ársins. Platan vann Kraumsverðlaunin sem ein af plötum ársins 2009. Plöturnar eru allar gefnar út hjá breska útgáfufyrirtækinu Touch. Hildur hefur samið tónlist við leikrit, dansverk og kvikmyndir. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið, Tate Modern, Breska kvikmyndasamsteypan, Konunglega óperan í Stokkhólmi og Borgarleikhúsið í Gautaborg eru á meðal þeirra stofnana sem hafa ráðið Hildi sem tónskáld. Hún hlaut Grímuna 2011 fyrir tónlist í Lé Konungi í Þjóðleikhúsinu og var tilnefnd til dönsku Robert-kvikmyndaverðlaunanna, fyrir tónlist við kvikmyndina Kapringen. Tónlistarráð Norðurlanda tilnefndi Hildi sem eitt af tónskáldum ársins 2014 og hlaut hún Menningarverðlaun DV árið 2016. Kvikmyndatónlist hefur verið fyrirferðamikil hjá Hildi síðustu misseri. Hún leggur nú lokahönd á tónlist fyrir stórmyndirnar Soldado og Mary Magdalene auk þess sem töluvert af tónlist hennar hljómaði í sjónvarpsseríunni Handmaid´s Tale. Hildur hlaut Edduna 2016 fyrir tónlistina í kvikmyndinni Eiðnum.

Margrét Bjarnadóttir hefur starfað sem danshöfundur, myndlistarmaður og skáld undanfarin ár. Hún útskrifaðist frá ArtEZ Hogeschool voor de Kunsten í Arnhem í Hollandi árið 2006. Frá útskrift hefur Margrét unnið í ýmis form og ólíka miðla.

Skúli Sverrisson er íslenskt tónskáld og bassaleikari. Síðastliðna áratugi hefur hann starfað með tónlistarmönnum á borð við Ólöfu Arnalds, Wadada Leo Smith, Derek Bailey, Lou Reed, David Lindsay, Ryuichi Sakamoto og Hild Guðnadóttur. Skúli hefur gefið út nokkrar plötur með eigin tónlist og leikið inn á yfir hundrað plötur í félagi við aðra listamenn. Skúli er listrænn stjórnandi Mengis.

 

Verð viðburðar kr: 
2 000