29. september 2018 -
13:00 til 15:00

Málþing: Ríkir þar fegurðin ein?

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Málþing: Ríkir þar fegurðin ein? Sýningin Einskismannsland og afstaða okkar til víðerna í dag.

Málþingið er skipulagt í tengslum við sýninguna Einskismannsland - Ríkir þar fegurðin ein? sem  hefur staðið yfir í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum síðan í byrjun sumars. Sýningunni lýkur nú um helgina.

Í heiti þessarar viðamiklu sýningar er vísað til hálendis Íslands og hugmynda sem íbúar hafa haldið á lofti um það. Þar er ýjað að fáförnum víðernum og villtri náttúru þar sem áhrifa mannsins gætir varla. Afstaða fólks hefur tekið miklum breytingum í áranna rás í takt við betri aðgang að svæðinu og margháttaða nýtingu þess. Þrátt fyrir allt má enn í dag greina tilhneigingu til þess að viðhalda ímynd hálendisins sem ósnortins landsvæðis. Í rúma öld hefur einskismannsland birst í verkum myndlistarmanna. Þeir hafa á hverjum tíma endurspeglað þau ólíku viðhorf og sem uppi hafa verið um öræfin og jafnframt átt ríkan þátt í að móta þau viðhorf.

Verk á sýningunni vekja upp margar spurningar er varða tengsl manns og náttúru, gildismat okkar, ágreiningsefni og stefnu í umhverfismálum og munu þátttakendur málþingsins nálgast umræðuna hver á sinn hátt. Listamenn munu einnig deila hugleiðingum sínum um hvert hlutverk myndlistarinnar er í þessu samhengi.

Þátttakendur
Einar Garibaldi Eiríksson, myndlistarmaður
Dr. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, heimspekingur
Rúrí, myndlistarmaður
Unnar Örn Auðarson, myndlistarmaður
Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur

Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, mun stýra umræðum.

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur