21. júní 2018 - 19:00

Kynning á nýútkominni bók Óskar Vilhjálmsdóttur

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Í bókinni Land undir fót er texti eftir Ósk ásamt um 111 stillum úr vídeó upptökum sem hún tók við Hálslón við Kárahnjúka. Bókin var unnin samtímis innsetningu Óskar Vilhjálmsdóttur á sýningunni Einskismannsland - Ríkir þar fegurðin ein? í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, sem partur af Listahátíð í Reykjavík 2018. 

Það er augljóst hvar hjartað slær...
Ósk hefur endurtekið í myndlist sinni skírskotað til heimsmyndar sem tengist náttúrunni og hún er ákafur náttúruverndarsinni. Hér í bókinni Land undir fót er sjónum beint að landinu þar sem manngerð röskun hefur átt sér stað. Landið birtist sem lifandi líkami, undurfagur í allri sinni viðkvæmni. Vatninu slær óvægið við land og við sjáum merki þess hvernig náttúran ummyndar sig og þróar í breyttum aðstæðum. Ferðalag Óskar í kringum Hálslón Kárahnjúka er hér greint með myndbandsstillum í tímaröð og liggur á mörkum þess að vera listaverk og heimildarsýn á mjög svo umdeildu svæði.

kl. 20.00 sama kvöld verður leiðsögn um sýninguna Einskismannsland  með listamönnunum Einari Garibaldi og Ósk Vilhjálmsdóttur sem eiga verk á sýningunni.