Klúbbur Listahátíðar: Ísland - Argentína | listasafnreykjavikur.is
16. júní 2018 -
13:00 til 15:00

Klúbbur Listahátíðar: Ísland - Argentína

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Ísland mætir Argentínu í sínum fyrsta leik á HM í Rússlandi. Leiknum er varpað á kvikmyndatjald í Klúbbnum í beinni útsendingu frá Moskvu en hljóðheimurinn, innblásinn af framvindu leiksins, er mótaður á staðnum af Þórönnu Björnsdóttur.

Hér blandast lágvær og seiðandi rafhljóð saman við hvatningaróp áheyrenda, ákafar lýsingar íþróttafréttamanna blandast vettvangshljóðritunum, leikjakerfi fótboltamannnanna hefur möguleg áhrif á uppbyggingu hljóðheimsins og við upplifum knattspyrnuna út frá glænýjum sjónarhóli.

Viðfangsefni Þórönnu Björnsdóttur eru mörg og mismunandi og taka á sig form í gegnum ýmsa miðla. Verk hennar eru iðulega sambland af mynd og hljóði og byggja m.a á samspili kvikmyndar og lifandi tónlistarflutnings þar sem þau geta tekið á sig mynd í formi hljóðskúlptúra, gjörninga og hljóðverka. Þóranna er ötul við tónsmíðar og hefur getið sér gott orð á vettvangi raftónlistar. Verk hennar hafa verið flutt í Ríksútvarpinu og hefur hún komið fram á fjölmörgum tónleikum og tónlistarhátíðum á Íslandi og erlendis. 

Sjálf er tónlistarkonan Þóranna á heimavelli þegar knattspyrna er annars vegar, alin upp á fótboltavelli og í hljómsveitargryfju en faðir hennar Björn Th. Árnason, fagottleikari er fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og fótboltaþjálfari.

Verð viðburðar kr: 
0