Klúbbur Listahátíðar: Hlustunarpartý með Borko | listasafnreykjavikur.is
4. júní 2018 -
21:00 til 22:00

Klúbbur Listahátíðar: Hlustunarpartý með Borko

Klúbbur Listahátíðar: Hlustunarpartý með Borko
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Sökkvið ykkur ofan í heillandi hljóðheim Borkos við dansverk Báru Sigfúsdóttur, "The Lover". Tónlistin verður flutt í víðómi í Klúbbi Listahátíðar, mánudagskvöldið 4. júní klukkan 21 en The Lover verður sýnt á tveimur sýningum í Tjarnarbíói, 7. og 8. júní.

„Haustið 2014 vorum við Bára saman í residensíu í Brussel en til stóð að vinna að "The Lover". Við eyddum fyrsta deginum í að ræða hugmyndir okkar um lífið og listina, þær áskoranir sem við stæðum frammi fyrir sem listamenn og í hvaða áttir okkur dreymdi um að teygja okkur og komast. Við vorum bæði á þeim stað að vilja leyfa okkur að treysta meira á hið einfalda og smáa og skapa eitthvað sem léti ekki mikið yfir sér en afhjúpaðist ef eyru og augu voru lögð við. Þannig fundum við strax á fyrsta degi einhvern estetískan samhljóm. Daginn eftir byrjuðu einhverjir töfrar að fæðast og á næstu þremur dögum varð tónlistin við verkið meira og minna til.“ B.K.

Björn Kristjánsson (Borko) hefur starfað sem tónlistarmaður í alls kyns samhengi í tæp tuttugu ár. Hann hefur meðal annars leikið með hljómsveitunum Rúnk, Skakkamanage og FM Belfast og haldið úti sólóverkefninu Borko. Björn hefur auk þess starfað sem tónlistarkennari í grunnskólum og leitt fjölda tónlistarverkefna með börnum. Björn hefur haft reglulega viðkomu í sviðlistageiranum sem tæknimaður og tónskáld. Hann hefur meðal annars samið tónlist fyrir leikverkin Brim, Gyllta drekann og Óþelló, sviðlistaverkin Klúbbinn og Made in Children og dansverkin Hindarleik og The Lover.

Verð viðburðar kr: 
0